Hvað er mælt með greindarvísitölu. Greind segja margir. Ég held ekki. Greindarvísitala er í raun ágæt í því að mæla þætti í fari fólks sem eru líklegir til þess að hjálpa þeim að komast áfram í okkar samfélagi. En þetta er ekki greind, eða allavega ekki nema mjög þröng skilgreining á greind. Ákaflega þröng skilgreining.
Í stuttu máli þá er fullt af fólki sem myndi án efa mælast með háa greindarvísitölu sem ég myndi hiklaust kalla vitlaust. Síðan er til fólk sem myndi ekki skora mjög hátt á slíkum prófum en er án efa gáfað.
Það er líklega nauðsynlegt að taka fram að ég er ekki að tala um hluti eins og tilfinningagreind. Ég er að meina það sem við myndum almennt tala um þegar við segjum að fólk sé klárt eða gáfað.
Það segir líka sitt að greindarpróf eru svo gölluð að það er hægt að æfa sig til að fá hærri niðurstöðu. Niðurstöðurnar eru alltaf háðar einhverju sem hefur ekkert með greind að gera.
Greindarpróf hafa alltaf mótast af reynsluheimi þeirra sem semja þau. Sumsé hvað höfundunum finnst mikilvægt, hvernig þeir tala og hvernig þeir upplifa heiminn. Síðustu áratugi hafa þó orðið töluverðar framfarir í þeim efnum. Þó er rétt að nefna að þó fræðin hafi batnað þá þýðir það ekki að öll próf séu orðin betri.
Þetta leiðir okkur að spurningu sem er, að mínu mati, ekki gagnleg. Markast greind frekar af erfðum eða umhverfi? Undirliggjandi spurning er síðan hvort „kynþáttur“ fólks ákvarði greind þess.
Lengst af voru greindarprófin gerð nær eingöngu af hvítum köllum í efri stéttum samfélagsins og áhrif þeirra eru ennþá mikil. Þessir hvítu kallar komust mjög óvænt að því að hvítir karlar í efri stéttum samfélagsins væru klárastir af öllum. Hvítir kallar hafa í gegnum tíðina verið sérstaklega duglegir að finna leiðir til að staðfesta að þeir séu frábærir. Það er eitt af mörgu sem þeir eru bestir í.
Þegar á leið þá kom auðvitað í ljós að meintir yfirburðir hvítra kalla voru hverfandi. Eftir því sem kvenréttindi hafa orðið almennari þá hefur kynjamunurinn nær horfið.
En hvað með þessu meintu „kynþætti“? Sá munur hefur líka minnkað gríðarlega. Að hluta til er það vegna þess að prófin eru ekki lengur hvítukallamiðuð heldur sjáum við nokkuð sem hefur verið kallað Flynn-áhrifin. Flynn er reyndar hvítur kall en hann hefur bent á að fólki gengur sífellt betur í greindarprófum. Er fólk sífellt að verða greindara?
Þegar við höfum Flynn-áhrifin í huga þá verður augjóst að umhverfisáhrif hljóta að vera veigamikill þáttur í því sem er mælt með greindarvísitölu.
Þegar ég heyri fólk tala um að erfðir séu langmikilvægastar þegar kemur að greind þá hugsa ég um Mowgli og önnur börn sem eru alin upp án aðstoðar mannfólks. Ef við myndum leggja greindarpróf fyrir Mowgli um leið og hann kemur úr frumskóginum þá myndi hann ekki skora hátt. Umhverfið hefur því töluverð áhrif.
En það er ekki bara í einhverjum hugarflugsdæmum um frumskógarbörn sem við sjáum áhrif umhverfis. Þau áhrif eru nefnilega alltumlykjandi. Menntun skiptir gríðarlegu máli. Menntun foreldra skiptir máli. Næring skiptir máli. Mengun skiptir máli. Efnahagur skiptir máli.
Vandinn er að það er voðalega erfitt að mæla umhverfisáhrif á greind. Þú getur ekki einangrað þessar breytur. Það hafa verið gerðar rannsóknir á tvíburunum sem hafa verið ættleiddir í sitt hvora fjölskylduna en þær segja okkur lítið. Þetta eru nefnilega svo fá dæmi og það var almennt lítill munur á fjölskyldunum sem ættleiddu tvíburana. Umhverfið var sumsé næri eins.
Þegar fólk heldur því fram að greind fólks sé aðallega mörkuð af erfðum þá er það ekki bara skaðlegt af því að þetta eru léleg vísindi heldur líka vegna þess að fólk hrapar að ályktunum um greind annarra vegna uppruna þeirra.
Þetta leiðir mig að alræmdri bók þessa daganna. The Bell Curve: Intelligence and Class Structure in American Life kom út árið 1994. Á sínum tíma var hún jörðuð enda byggði hún ekki á traustum vísindum eða góðri stærðfræði. Þar sem gagnrýnin á bókina var að mestu leyti byggð á kynþáttahyggjunni sem í henni birtist þá yfirsést mörgum að hún er fyrst fremst ætluð til að réttlæta stéttaskiptingu samfélagsins. Þeir sem eru á neðstu stigum samfélagsins séu það vegna þess að þeir eru heimskari en hinir ríku og menntuðu. Staða þeirra markast af erfðafræðilegum takmörkunum sem þýðir að allar hugmyndir um að bæta stöðu þeirra með menntun sé einfaldlega sóun á peningum.
Eftirlifandi höfundur bókarinnar Charles Murray tilheyrir ekki fræðasamfélaginu. Hann vinnur fyrir íhaldssaman hugsanatank*. Skrif hans eru fyrst og fremst pólitísk og eru fjármögnuð af ríku fólk sem vill borga lægri skatta. Þó meðhöfundur hans (sem drapst um svipað leyti og bókin kom) hafi verið háskólamaður segir það sitt að rannsóknir þeirra voru ekki birtar í ritrýndum fræðiritum. Slík fræðirit hefðu vonandi bent á allavega sumar villurnar áður en að birtingu kom.
Á Íslandi höfum við ekki jafn mikla sögu af kerfisbundinni kynþáttahyggju og Bandaríkin, Frakkland eða Bretland en við höfum ríka sögu af stéttamismunun þó hún hafi lengi verið í þagnargildi. Skólar mismunuðu nemendum á grundvelli uppruna þeirra (og gera líklega enn þó það sé hverfandi). Nemendur af fátækum heimilum voru álitnir heimskir og að það væri ekkert gagn í að mennta þá. Börn hinna ríku fengu forgang í réttu skólana. Þetta var skelfilegt kerfi sem eitraði samfélagið. Við viljum vonandi ekki snúa til baka í þessum málum og um leið hljótum við að sjá hættuna þegar ruslvísindi sannfæra fólk um að stimpla fólk með annan hörundslit heimskt.
Ég held að greindarpróf segi okkur ekki mikið og geri ekki mikið gagn. Þau eru gölluð og hafa haft skaðleg áhrif á ótalmarga. Það er vissulega gaman að fá góða niðurstöðu úr slíku prófi en það hefur ekkert mikið meiri þýðingu en önnur próf sem maður hefur tekið í gegnum tíðina. Það er fátt vandræðalegra en þegar fólk montar sig af greindarvísitölu sinni – sérstaklega þegar þetta „fólk“ er maður sjálfur fyrir tuttugu árum.
* Ég veit að margir kalla þetta hugveitur en að mínu mati er þetta tankur.