Frá því að ég heyrði fyrst af Raspberry Pi örtölvunum hef ég verið heillaður af þeim. Ég setti upp leikjatölvuhermi, sjónvarpstölvur og allskonar. Allt hræódýrt.
Þegar ég var að setja upp vinnuaðstöðu hérna í Kistunni hugsaði ég með sjálfum mér að ég myndi ekki nenna að ferja fartölvuna endalaust á milli. Stundum er ég bara að vinna í handritum eða einhverju öðru sem þarf eiginlega engan kraft til að keyra. Þannig að ég ákvað að kaupa eitt stykki Raspberry Pi 4 með 4gb vinnsluminni fyrir slíkt. Það virkaði bara vel.
Ég orðaði það einhvern tímann þannig að Pæið hafi verið álíka öflug og vinnutölvan sem ég hafði á skólabókasafninu í Húsaskóla. Sú þurfti auðvitað að keyra Windows sem er þungt stýrikerfi á meðan Raspbian/Raspberry Pi OS er alveg rosalega létt. En síðan er það bara þannig að vinnutölvan mín var ekki öflug.
En fyrir ekki svo löngu síðan kom út ný útgáfa af Pi 4, nú með 8gb vinnsluminni. Ég ákvað að kaupa hana ekki strax. En auðvitað náði ég að réttlæta fyrir mér að kaupa nýju útgáfuna (sú gamla er komin í þrívíddarprentarann).
Ég ákvað að gera smá tilraunir með nýju tölvuna og í stað þess að setja upp staðlaða stýrikerfið þá ákvað að ég að prufa önnur stýrikerfi.
Ubuntu Mate
Ég valdi Ubuntu Mate af því að það er líkt Linux Mint sem ég nota daglega. Það virkaði ákaflega vel. En síðan ákvað ég að tengja annan skjá við pæið. Þá hætti tölvan allt í einu að spila myndbönd. Það virkaði fínt þegar ég var bara með einn skjá. Ef ég hefði bara viljað hafa einn skjá þá var Ubuntu Mate best.
Manjaro
Ég hef aldrei verið heillaður af Manjaro. Það er samt mjög vinsælt stýrikerfi. En ég ákvað að prufa það. En þá virkaði ekki hljóðúrtakið. Þannig að ég get spilað myndbönd en ég er ekki mikið í þöglu myndunum. Síðan var ég bara ekki að fíla kerfið sjálft. Bara einfaldir hlutir eins og að fletta í valmyndinni virka ekki eins og ég myndi vilja.
Raspberry Pi Os
Ég hef notað Raspberry Pi Os reglulega. Það virkar mjög fínt. Vandinn er að það er hannað fyrir allar útgáfur Pæ. Þannig að það er ekki að nýta vinnsluminnið í nýju tölvunum til að flýta fyrir manni, til dæmis í valmyndinni. Á meðan Linux Mint umhverfið, Cinnamon og jafnvel líka Mate, virkar vel fyrir fólk sem elskaði Windows XP notendaumhverfið þá er Raspberry Pi Os svolítið eins og Windows 95. Ég þarf að athuga hvort ég geti ekki bara fengið annað gluggaumhverfi.
En það virkar auðvitað að spila myndbönd og hljóð kemur auðveldlega. Það sem vantar kannski helst í hin stýrikerfin er raspi-config tólið sem getur reddað öllu sem maður vill stilla í Pæ. Í hinum kerfunum er þetta innlimað í almennu stillingarnar og er ekki að virka nógu vel.
Niðurstaðan er síðan auðvitað að Raspberry Pi er orðin nógu öflug tölva fyrir þá sem er mest í léttri vinnslu. Það er reyndar hægt að gera tölvuvert meira en ég hugsa svolítið um allt þetta fólk sem er á rándýrum tölvum til að hanga á Facebook og vinna í ritvinnslu. Það er þá ágætt að kaupa bara tölvu sem kostar bara 75 dollara.