Fátæk börn verðskulda ekki neitt

Ég fann mjög persónulega fyrir valdatöku frjálshyggjunnar á Íslandi þegar ég var 12-14 ára. Ég þurfti að fara í tannréttingar. En ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins var að ráðast á kerfið. Þegar ég mætti í fyrsta tímann var ekki ljóst hvernig greiðsluþátttaka foreldra yrði. Tannréttingarfræðingurinn var ábyrgur og sagði að hann vildi ekki byrja meðferð meðan ekki væri á hreinu hve mikið það kostaði.

Síðan varð ljóst hvernig þetta yrði. Kostnaði var velt yfir á fjölskyldurnar.

Þetta var ekki góður tími í atvinnumálum sem hafði mikil áhrif á mitt heimili. Ég fann mjög sterkt fyrir þessum þrýstingi á þessum árum. Það voru ekki til miklir peningar. Ég vissi líka að tannréttingar kostuðu mikið. Þannig að í hvert skipti sem ég mætti í tíma þá fann ég fyrir blöndu af skömm og samviskubiti.

Ég talaði auðvitað ekki um þetta við neinn. Það var ekki vel séð að vera fátækur. Þegar ég mætti í skólann í skóm sem voru keyptir í Rúmfatalagernum fékk ég að heyra það. Öll föt sem ég átti voru gagnrýnd á svipaðan hátt. “Er þetta úr Hagkaup?” var lína sem ég heyrði mjög oft.

Samspil tilfinninga hjá mér á þessum aldri var flókið. Mig langaði í hitt og þetta en skammaðist mín þegar ég fékk eitthvað. Fannst það peningasóun. Sérstaklega ef það var eitthvað dýrt. Þegar ég eignaðist Nike skó var ég ánægður, ekki út af merkinu heldur af því að skórnir entust. En það var líka skömm. Þetta var sóun. Ég var auðvitað líka hræddur um að einhver myndi taka að sér að skemma þá. Mér leið eiginlega betur þegar ég fékk falsaðar Levi’s gallabuxur þó það væri hæðst að mér.

Lukkulega var ég ekki mjög lengi með spangir. Þá var ég bara með góm og víra á bak við framtennur. Ég endaði fór sjaldnar og sjaldnar í tíma til að athuga hvernig gekk. Annar vírinn losnaði og ég endaði með að fjarlægja hann alveg sjálfur. Að lokum brotnaði gómurinn ég fékk ekki af mér að mæta til að láta laga hann eða fá nýjan. Tennurnar hafa sem betur fer haldist að mestu á réttum stað.

Það sem er ótrúlegast er líklega að skömmin er ennþá til staðar. Ég reyni að gagnrýna frjálshyggju með almennum rökum en staðreyndin er sú að ég hef fundið sjálfur fyrir afleiðingum þessarar mannfyrirlitningarstefnu sem refsar ekki bara fátækum heldur börnum þeirra líka. Það að láta okkur finna fyrir að peningaskortur þýði að við verðskuldum ekki neitt.

Það að ég sé langt til vinstri á pólitíska skalanum er auðvitað nátengt því að ég upplifði að heimili mitt var selt á nauðungaruppboði. Ég vil ekki að önnur börn upplifi það sama og ég. Þessi skömm eitrar mann fyrir lífstíð. Það verður aldrei auðvelt að fátækari stéttum en við ættum að stefna að kerfi sem er mannúðlegt.

Ég get ekki fyrirgefið stjórnmálamönnum sem leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda. Ekki þá og ekki núna. Efnahagsstefna flokksins er gjaldþrota. Keisarinn er berrassaður. Það ætti öllum að vera ljóst að flokkurinn hefur ekkert fram að færa annað en græðgi og þjónkun við hina ríku.