(Trans)fólk og fegurð

Það var manneskja sem ég sá oft þegar ég var táningur. Mig minnir að hún (manneskjan) hafi verið á miðjum aldri. Hún leyfði sér uppreisn gegn viðteknum venjum varðandi útlit og klæðaburð. Ekki áberandi. Ekki mikið. Ég vissi ekkert hvað þetta þýddi og ég ætla ekki að giska núna þó ég hafi vissulega greinilegri hugmyndir um hvað var á seyði. En ég get ímyndað mér að litlar uppreisnir hafi kostað mikið hugrekki, sérstaklega á þessum tíma á Akureyri.

Þegar ég var aðeins eldri var önnur manneskja sem kom alveg út úr skápnum með að vera trans á Akureyri. Hún var ótrúlega hugrökk. En maður heyrði fólk í kringum sig tala um hana á mjög niðrandi hátt. “Hvað á maður að kalla hann eða hana eða þetta?” Ég held að samkennd mín með samkyhneigðum hafi yfirfærst á transfólk þannig að ég tók aldrei undir svona tal. En ég sagði aldrei neitt. Ég var kannski réttum megin í skoðunum en ég var ekki hugrakkur.

Ég velti oft fyrir mér öllum þessum hann/hún/þetta bröndurum þegar ég heyri fólk kvarta yfir þeim persónufornöfnum sem transfólk kýs sér. Ætli þessir kvartarar hafi ekki sagt svipaða brandara á sínum tíma?

Þegar ég fór hlusta/horfa á hlaðvarpið Harmontown “kynntist” ég manneskju sem kom hægt og rólega út úr skápnum sem trans. Sérfræðingur í gleri (sbr. glösum og slíku) sem heitir Jane. Á nokkrum árum kom hún reglulega í heimsókn útskýrði fyrir fólki hvernig hún sæi sjálfa sig. Mjög áhugavert. Áhrif hennar á áheyrendur komu síðan í ljós þegar einhver uppistandaragaur sem gestur og fór að segja frekar milda transfóbíska brandara. Áhorfendur voru bara alls ekki í stuði að heyra svona kjaftæði.

Ég er allavega kominn yfir það að hunsa transfóbíska brandara. Ég hef slökkt á nokkrum uppistöndum sem ég hef verið að horfa á af því að ég nennti ekki að hlusta á svona rugl. Ég tek fram að ég er ekki að segja að þessir uppistandarar séu vondar manneskjur. Það er eiginlega frekar að mér finnist þeir vandræðalega hallærislegir. Íhald dulbúið sem uppreisn gegn valdi er bara kjánalegt. Það má hiklaust gera grín að Caitlyn Jenner en transfóbísku brandarar Ricky Gervais eru ekki bara árás á hana heldur á transfólk almennt.

Jane náði að kenna mér, og líklega mörgum öðrum, að hugsa um kyn og transfólk. Til dæmis að pakka þeirri hugmynd að allir sem eru trans þurfi að ganga í gegnum allar skurðaðgerðir sem eru í boði.

Kannski er það Jane að þakka að ég endaði einhvern veginn með fullt af fólk úr transsamfélaginu á Twitter. Það var ekkert með vilja gert. Ég bara fattaði allt í einu að það var fullt af transfólki þarna.

Ég sé reglulega pósta frá transfólki sem er óöruggt með útlit sitt. Þá langar mig að vera týpan sem getur einlæglega tjáð því að það sé fallegt. En málið er að ég er eiginlega aldrei að tjá mig um útlit fólks. Mér finnst það ekki mitt hlutverk. Mér finnst að álit mitt ætti yfirhöfuð ekki skipta neinn máli. Nema kannski mína nánustu.

En þeir sem vilja að aðrar manneskjur upplifi sig ljótar eru týpurnar sem tjá sig mest. Vilja að orðin þeirra særi og minnki sjálfstraust.

Þannig að í staðinn fyrir að kommenta við myndirnar ykkar þá skrifaði ég þessa bloggfærslu, aðallega til að segja: Ég sé fegurð ykkar.

One thought on “(Trans)fólk og fegurð”

Lokað er á athugasemdir.