Gagnlegir þrívíddarprentaðir hlutir

Ég hef átt þrívíddarprentara í eitt og hálft ár eða svo. Mér finnst einna skemmtilegast að prenta einfalda gagnlega hluti. Þetta eru nokkur dæmi um það. Sumt kemur af Thingiverse, sumu hef ég breytt til að það passi og síðan er sumt ég hef teiknað upp frá grunni.

Pennahaldari á teikniborðið mitt
Pennahaldari á teikniborðið mitt (upphaflega stykkið rifnaði af). Beint af Thingiverse.
Hnappar á vekjaraklukku
Hnapparnir á þessari gömlu vekjaraklukku voru brotnir þannig að ég mældi og teiknaði upp nýja hnappa (svarti hringurinn). Hræódýr klukka auðvitað en mér leiðist að henda hlutum.
Sturtusápuhaldari
Þessi sápuskammtari er of þungur fyrir aðrar hillur í sturtunni þannig að ég hannaði og prentaði haldara sem smellur á rörið.
Snjallsímahaldari á þrífót
Gunnsteinn hefur gaman af því að taka upp myndbönd og þarf stundum að gera það núna í staðinn fyrir að mæta á flautuæfingar. Ég þarf reyndar að finna góðan bolta sem er auðveldara að herða og losa.
Wii-U festing aftan á sjónvarpið
Til þess að spara pláss tók ég Wii-U festingar sem voru til á Thingiverse og breytti þeim þannig að þær myndu smella á sjónvarpsfestinguna.
Sama festing frá öðru sjónarhorni.
Sama festing frá öðru sjónarhorni.
Uppþvottavélamerking
Það er gott að geta séð og merkt hvort það sé hreint eða óhreint eða í uppþvottavélinni. Þetta er byggt á enskri hönnun á Thingiverse. Ég er reyndar ekki ánægður með þetta prent. Ég notaði “strauja” fídusinn og það var bara ekki að virka. Ég skipti um lit í miðju prenti til að hafa textann skýran.
Núna hreint!
Núna hreint!
Kassi utan um skjá og stýringu á þrívíddaraprentaranum.
Þrívíddarprentarinn kemur svolítið hrár og meðal þess sem ég gerði var að prenta þetta stykki af Thingiverse sem hýsir líka Raspberry Pi 4 tölvu sem stýrir prentaranum.
Skúffur á prentarann
Það er nauðsynlegt að geyma ýmislegt smádót og verkfæri fyrir þrívíddarprentarann. Þessi skúffa kemur beint af Thingiverse.
Kefli fyrir plastrúllur
Til að spara plast þá kaupi ég áfyllingar án rúllu. Þetta kefli passar nákvæmlega þannig að ég get fært nýjar rúllur beint á.
Snúrudóterí
Ég fann þetta á Thingiverse fyrir upptökuborðið í Kistunni.
Hirsla fyrir breytistykki
Ég vildi fela þetta breytistykki undir upptökuborðinu þannig að ég teiknaði upp þetta litla “hólf”. Stykkið fellur þarna inn og snúran kemur út um gat á endann og það haggast ekkert.
Fjöltengjahengi
Mjög einfalt Thingiverse stykki til að festa fjöltengi. Ég hef prentað þónokkur svona.
Valslöngva
Það er líklega ekkert gagn að þessari valslöngvu en hún er skemmtileg.