Árið 1978 var Star Wars Holiday Special frumsýnd. Þetta var ári eftir að fyrsta myndin var frumsýnd. Þessi jólamynd hlaut ekki góða dóma.
Þannig að þetta varð hálfgoðssagnakennt. Aldrei gefið út aftur. En fólk hafði tekið þetta upp á myndbandsspólum og þær voru afritaðar í áratugi. Síðan lak þetta á netið.
Ég veit ekki hvenær ég fann afrit af þessu. Gæðin voru vægast sagt slök. Lélegt afrit af lélegri upptöku í lágum gæðastöðlum. DivX fyrir þá sem þekkja slíkt.
Ég ætlaði að horfa og hlæja. Myndin gerist að mestu á heimaplánetu Chewbacca þar sem verið að er að fagna “Lífsdeginum” sem eru þeirra jól. Fyrsta atriðið er bara Vákafjölskylda að spjalla saman á sínu tungumáli, án texta. Það er mjög langt atriði. Ég gafst bara upp.
Í desember fann Gunnsteinn þetta á sjónvarpstölvunni okkar og stakk upp á að horfa á. Ég var ekki í stuði þá.
Í dag ákváðum við strákarnir að horfa saman á Lego Star Wars Holiday Special. Það var gaman. En það leiddi af sér hugmyndina að horfa á upprunalegu myndina. Allavega að sjá hvað við myndum endast lengi.
Það að horfa á þetta með strákunum gerði þetta bærilegt, jafnvel skemmtilegt. Gerðum endalaust grín að þessu öllu.
Það er margt asnalegt í myndinni. Skrýtnast fannst mér eiginlega að atriði þar sem keisaraveldið neyðir þegna sína að horfa á óklippta útsendingu frá barnum í Mos Eisley. Þessum þar sem óþokkar heimsins safnast saman. Barþjónninn er Bea Arthur sem mín kynslóð man helst eftir úr Klassapíum. Hún skiptist á gríni við viðskipavinina og syngur lag með hljómsveitinni frægu. Þetta er fólkið á heimaplánetu Vákanna neytt til að horfa á.
Það er eitt atriði sem hefur fengið jákvæða dóma. Það er teiknimynd sem kynnti fyrst persónuna Boba Fett. Hún var þolanleg miðað við restina. En samhengið í þessari mynd var mjög undarlegt. Sonur Chewbaccea, Lumpy, var að horfa á teiknimynd þar sem pabbi hans var í aðalhlutverki með Hans Óla og vélmennunum. Hver gerði þetta teiknimynd í heiminum þeirra?
Það var margt fleira í myndinni. Mörg mjög óþörf tónlistaratriði. Við spóluðum yfir atriðið sem Jefferson Starship spilar sem heilmynd. Í samhenginu myndarinnar þá eru einhver keisaraliðsforingi að horfa á tónlistarmyndbandið.
Í lok myndarinnar syngur Lilja prinsessa Lífsdagslag. Það er voðalegt. Viðeigandi endir á mjög slæmri mynd.
Þegar myndin var búin nefndi ég að það væri örugglega hægt að finna hana í hærri gæðum til að horfa á á næsta ári. Drengirnir voru ekki spenntir fyrir þeirri hugmynd.