Þegar Elon Musk keypti Twitter sagði ég eitthvað á þá leið að versta sem gæti gerst væri að við myndum bara öll hanga þarna meðan hann gerði sitt besta til að níðast á minnihlutahópum.
Á fyrsta mánuði sínum hleypti Musk aftur inn fólki sem hafði stundað allskonar hatursáróður og fór síðan að banna andfasista og vinstri rótttæklinga. Þannig að ég ákvað að þetta væri komið gott. Nú er Musk farinn að tvinna saman samsæriskenningum um COVID-19 og transfóbíu og ég spyr mig hvenær restin af fólkinu fær nóg?
Stærsta hindrunin er fólkið sem hefur stóran hóp af fylgjendum þarna. Það er fast í hugmyndinni um sokkinn kostnað. Það reynir að sannfæra sig og aðra að það sé flókið að færa sig og að það versta fyrir Musk sé andóf gegn honum á Twitter. Ég held þvert á móti að það hjálpi honum með því að viðhalda þeirri hugmynd að þetta sé ennþá staður eðlilegra skoðanaskipta.
Lukkulega eru þessir stóru reikningar hægt og rólega að yfirgefa Twitter. Líklega kemur sá tímapunktur að þetta verður að flóði. Hvort það gerist áður en kerfið bókstaflega hrynur er stóra spurningin.
Reikningurinn minn á Twitter er ennþá þarna. Tilgangurinn er að beina fólki á nýja aðra staði, sérstaklega Mastodon. Það hefur verið erfitt, ekki að ég sakni Twitter heldur eru puttarnir mínir ennþá á sjálfvirkni þannig að ég hef reglulega lent í því að opna vefinn óvart. Appið fékk hins vegar að fjúka fyrst af því að það safnar miklu meiri upplýsingum en vefurinn.
Ef mig langar að sjá hvað er í gangi á Twitter fer ég á Nitter sem speglar efnið yfir. Ég ætlaði líka að nota Polititweet sem fylgist ekki bara með hvað fólk birtir heldur skráir það líka hvaða tístum hefur verið eytt. Sá vefur hætti að virka nýlega og ég veit ekki hvor sé líklegri skýringin, að Twitter sé hægt og rólega að hrynja eða Elon Musk hafi þótt þetta sérstaklega vandræðalegt og lokað fyrir tengingarnar.