Það er auðvelt að afgreiða Roger Corman sem framleiðanda B-mynda. Það er alveg sannleikur. Bara ekki allur sannleikurinn.
Eins og margir sem fá áhuga á kvikmyndum byrjaði ég snemma að rekast á nafn Roger Corman. Það var ekki af því hann gerði svo margar góðar myndir heldur vegna fólksins sem hann hjálpaði að komast af stað í kvikmyndaiðnaðinum.
- Francis Ford Coppola
- Penelope Spheeris
- Joe Dante
- Martin Scorsese
- Jack Nicholson
- Robert DeNiro
- Dennis Hopper
- James Cameron
- Sylvester Stallone
- Peter Bogdanovich
- Jonathan Demme
- Curtis Hanson
- Ron Howard
- John Sayles
“Ef þú gerir tvær sæmilegar myndir fyrir mig þá þarftu aldrei aftur að vinna fyrir mig” er umorðun á línu sem Corman notaði oft. Listinn er auðvitað miklu lengri og kallar á spurninguna hvað olli því að svona margt hæfileikafólk vann með Roger Corman í upphafi ferils síns. Mín niðurstaða er að hann hljóti að hafa bæði verið góður að þekkja hæfileikafólk og að hjálpa fólki að rækta hæfileika sína.
Joe Dante sagði að svo lengi sem myndirnar uppfylltu ákveðin skilyrði sem áttu að tryggja aðsókn og gróða (s.s. nekt og blóð) hafði kvikmyndagerðarfólk mikið frelsi til að gera það sem það vildi.
Títtnefndur Joe Dante hóf feril sinn við að klippa auglýsingar fyrir Corman. Það voru ekki bara B-myndir sem komu inn á hans borð. Það voru myndir eftir Fellini og Bergman. Stórir dreifingaraðilar höfðu gefist upp á “erlendum” kvikmyndum en Corman sá færi á að selja þær í bílabíó sem gladdi þessa evrópsku kvikmyndajöfra.
Roger Corman leikstýrði líka sjálfur kvikmyndum. Ég var ellefu ára gamall þegar ég sá Pit and the Pendulum (1961) seint um kvöld á Stöð 2. Þó ég muni ekki söguna í heild sinni man ég alltaf hvernig atriðið hræddi mig. Þið sem hafið séð myndina vitið hvaða atriði ég er að tala um. Stephen King hefur lýst því hvaða áhrif þetta atriði hafði á hann.
Ég man líka eftir spennunni þegar ég var fletta í gegnum rekka í Videóveri í Kaupangi og fann The Little Shop of Horrors (1960). Flestir þekkja söngleikinn en upprunalegu myndinni var leikstýrt af Roger Corman. Hún er fræg fyrir að hafa verið tekin upp á örfáum dögum og nóttum. Þarna er ungur Jack Nicholson í hlutverki sjúklingins en ég var auðvitað glaðastur að sjá Dick Miller þar sem ég þekkti hann vel úr myndum Joe Dante (Gremlins, Gremlins 2, Howling, The ‘Burbs, Matinee, Innerspace …).
Ég get sagt án þess að ýkja að kvikmyndaiðnaðurinn í dag er mótaður af Roger Corman. Satt best að segja er erfitt að nefna nokkurn sem hefur haft meiri áhrif, beint og óbeint, til góðs og ekki endilega svo góðs.
Ef þið viljið kynnast Roger Corman get ég mælt með þáttum af hlaðvarpinu The Movies That Made Me. Í einu þætti segja leikstjórarnir Joe Dante (meðstjórnandi hlaðvarpsins) og Allan Arkush frá því hvernig var að vinna fyrir Corman en í öðrum þætti mætti maðurinn sjálfur (Roger Corman) í viðtal.