Það er ekki möguleiki að komast til Moldóvu án þess að millilenda einhvers staðar. Mig langaði samt ekki bara að heimsækja flugvöll heldur líka stoppa aðeins á nýjum stað. Ég fór í gegnum allar mögulegar borgir og var fyrst að skoða París. Verðin þar í borg voru samt full há fyrir minn smekk og ég áttaði mig ekki fyrren síðar að ég hefði verið þar í lok Ólympíuleikana.
Þó ég hafi heimsótt Þýskaland áður hafði ég aldrei komið til Berlínar. Ég ákvað því að stoppa þar í örfáa daga. Til þess að undirbúa mig horfði ég loksins á kvikmyndina Lola rennt (1998). Alveg stórgóð og þægilega stutt. Ég íhugaði að horfa á Berlin Alexanderplatz (1980) en fannst það fullmikil vinna.
Ég bókaði herbergi á Scandic Hóteli stutt frá Potzdammer Platz til að vera nálægt almenningssamgöngum. Reyndar var ég ekki alveg að skilja kerfið þarna strax. Ég keypti miða í S-Bahn á flugvellinum og fattaði ekki fyrren daginn eftir að ég hefði átt að láta stimpla kortið mitt áður en ég fór um borð í lestina.
Hitinn í Berlín var rétt uppundir 30 gráðum. Það var erfitt, jafnvel erfiðari en hærri hiti í Kísinev.
Ég var ekkert sérstaklega heppinn með mat í Berlín. Þó ég hafi prufað ýmislegt var fæst að hitta í mark. Þegar ég loksins ákvað að kaupa mér bara döner-kebab áttaði ég mig á að það hefði átt að vera mitt fyrsta val.
Fyrirfram hafði ég óljósar hugmyndir um hvað ég vildi skoða í Berlín. Ég merkti inn ýmsa staði á kortið en fátt ákveðið. Þar sem ég tengi mikið við skiptingu Berlín og Þýskalands (ég var 11 ára þegar Múrinn var rofinn) vildi heimsækja DDR-safnið (Austur-Þýskaland). Á leiðinni þangað rakst ég á styttu af Marx og Engels og leyfði þeim að sannfæra mig um að taka með þeim eins og eina sjálfsmynd.
Það var ekki allt glatað á DDR-safninu en ég var ekkert sérstaklega ánægður með það. Skipulagslega séð er ég ekkert hrifinn af söfnum þar sem þarf endalaust að vera opna og loka skúffum og skápum. Handavinna og smithætta. Tónninn var samt eiginlega verri. Stundum virtist nefnilega virtist ekki bara vera að tala niður stjórnkerfið í Austur-Þýskalandi heldur líka íbúa landsins.
Fyrirfram hafði ég ekki gert ráð fyrir mér að Trabantar yrðu svona áberandi á söfnum og í minjagripabúðum. Það er örugglega öðruvísi fyrir Íslendinga en aðra ferðamenn að sjá þessa bílategund. Á DDR-safninu var einn bíll sem hægt var að setjast inn í og „keyra um“ lélega tölvugrafíska útgáfu af Austur-Berlín. Röðin var samt full löng þar.
Mig langaði alveg smá að kaupa svona lítið módel af Trabant en ég lét það vera. Ég tengi mikið frekar við Lödur. Þegar ég sá myndir austurþýskum lögreglubílum hélt ég einmitt að ég hefði misskilið eitthvað eða að kvikmyndir hefðu logið að mér. Í mínum huga voru löggurnar á Lödum en þarna voru bara sýndir Trabantar. Ég lagðist í rannsóknarvinnu (opnaði Wikipediu) til að fá betri upplýsingar og komst að því að báðar bíltegundirnar hefðu verið notaðar. Mögulega var líka auðveldara fyrir framleiðendur James Bond að kaupa Lödur.
Rétt hjá var safnaeyjan. Það var fallegt, sérstaklega dómkirkjan. Ég heimsótti bara Neus Museum (Pergamon var lokað). Það var glatað safn. Mín einfalda þýskukunnátta kom sér að góðum notum, bæði þegar vantaði texta á ensku og þegar safnvörðurinn sagði mér að setja „Flasche“ í „Garderobe“.
Það vantaði fókus á safnið og skipulagið var slakt. Gripirnir voru frá mörgum stöðum og mörgum tímum. Að mörgu leyti var það því að kenna að safngripir voru oft hópaðir eftir söfnurunum (ræningjunum) frekar en þema, stað eða tímabili. Það virtist nær ekkert fjallað um gagnrýnina á safnið. Þegar kom að Nefertítí var aum réttlæting á því hvernig styttan komst í þeirra hendur.
Það fyrsta sem ég myndi gera ef ég stjórnaði safnamálum í Þýskalandi væri að skila öllum ránsfengnum. Ef það væri ekki í boði myndi ég taka öll þessi söfn á safnaeyjunni og færa til gripi þannig að hvert safn væri með betri fókus.
Brandenborgarhliðið er auðvitað flott en ég tengi ekkert sérstaklega við það. Nema mögulega í gegnum framlag Noregs í Júróvisjón árið 1990.
Checkpoint Charlie er góður staður fyrir sjálfsmyndatökur. Það mætti þó vera eitthvað meira sem sýndi samhengið þegar þetta var hliðið inn og út úr Vestur-Berlín. Það voru hins vegar ótal minjagripaverslanir þarna. Það var meira að segja McDonald’s þarna eins og til þess að leggja áherslu á að Bandaríkin hefðu sigrað.
Fyrirfram hefði ég haldið að skipulagðir Þjóðverjar væru betri í að merkja allt. Svo var ekki. Þegar kom að almenningssamgöngum saknaði ég þess hve auðvelt er að nota Undirgrundina í London. Almennt voru ekki þessar einföldu veggmerkingar til að sýna hvert lestirnar voru að fara þannig að ég þurfti frekar að nota Google til að segja mér hvaða vagna ég ætti að velja mér.
Ég hélt að ég væri búinn að kortleggja hvaða vagna ég þyrfti að taka frá Potzdammer Platz til að komast á flugvöllinn þannig að ég mætti þar um miðja nótt. Það fór þó þannig að ég fann ekki rétta brottfararstaði eða kom þangað of seint. Ég elti skilti sem beindu mér hvert ég ætti að fara en það endaði yfirleitt bara að ég kom upp á yfirborðið og vissi ekkert í hvaða átt ég ætti að fara næst.
Google var líka einstaklega glatað. Það flakkaði fram og til baka með ráðleggingar og virtist ekki gera neinn greinarmun á almenningssamgöngum og einhverjum flugvallarrútum sem reknar voru af einkaaðilum. Ég endaði með því að taka bara leigubíl.
Þegar ég var kominn að flugstöðvarbyggingunni varð ég aftur ringlaður. Ég bað leigubílstjórann að fara með mig að „Terminal 1“ en dyrnar voru merktar T2. Ég fór inn og leitaði að skiltum sem beindu mér að T1 en fann ekkert. Ég spurði að lokum starfsmann flugfélags sem upplýsti mig um að þrátt fyrir merkingar væri þetta vissulega T1. Ég var víst ekki fyrsti ferðalangurinn sem ruglaðist á þessu.