Terje Vigen (1917) í leikstjórn Victor Sjöström er sögð marka upphaf gullaldar þögulla sænskra kvikmynda. Allavega segir Wikipedia svo vera. Victor Sjöström er auðvitað lykilmaður í þeirri gullöld en hann lék líka aðalhlutverkið í Jarðaberjalundinum/Smultronstället (1957) eftir Ingmar Bergman.
Myndin er byggð samnefndu á ljóði Henrik Ibsen og er texti þess notaður á textaspjöld hennar. Ég hefði reyndar þurft nokkrar sekúndur í viðbót við hvert spjald til þess að skilja norskuna þannig að ég notaði enskan texta með. Það að tala um svarthvítar kvikmyndir er stundum villandi þar sem slíkar myndir, þar á meðal þessi, voru í mörgum tilfellum með litatóna í staðinn fyrir hvítan.
Terje Vigen er norskur sjómaður í Grimstad sem vill helst lifa rólegu lífi í faðmi konu sinnar og barns en öllu er umturnað þegar Bretar leggja á hafnarbann í Napóleónsstríðunum. Til að koma í veg fyrir að fjölskyldan svelti leggur Terje einn í hættuför á árabót til Danmerkur. Breskt herskip verður á vegi hans og …
Sagan er satt best að segja ekki frumleg. Það sem heillaði mig helst var að sjá hvernig rúmlega aldargömul kvikmynd sýnir norskan veruleika fyrir tveimur öldum. Stundum grunaði mig að kvikmyndin sýndi meira af 1917 heldur en 1809.
Því miður var engin hljóðrás á útgáfunni sem ég sá. Tónlist gerir oft mikið fyrir „þöglar“ myndir.
Þegar ég sé leikara í þöglum myndum flytja ræður sem eru súmmeraðar upp á titilspjöldum velti ég oft fyrir mér hvað var í raun sagt. Var það allt í handritinu? Voru leikararnir að spinna eitthvað?