Lawrence of Arabia (1962), leikstýrt af David Lean, er á ótal topplistum yfir bestu kvikmyndir allra tíma. Ég sá hana fyrir löngu síðan og hún greip mig ekki. Hvers vegna? Vandamálið er að ég sá hana á litlum túbuskjá, mögulega í styttri útgáfu.
Um leið og ég sá að Sambíóin væru að fara að sýna myndina á stóru tjaldi var ég ákveðinn að fara á hana. Einhvern veginn náði ég að sannfæra 15 ára son minn að koma með mér á kvikmynd sem nálgast að vera fjórir klukkutímar að lengd. Salurinn var ekki fullur en allavega nógu margir gestir til að réttlæta sýninguna.
Það gerði nokkra ringlaða þegar ljósin voru lækkuð og tónlistin byrjaði … en engin mynd birtist á tjaldinu. Það gladdi mig mikið að inngangstónlistin hafi fengið að fljóta með (ásamt tónlistinni í hléinu).
Tónlist Maurice Jarre er líka fyrsta vísbendingin um hve áhrifamikil þessi mynd er í kvikmyndasögunni. Ef þú heyrðir hana spilaða án samhengis myndirðu jafnvel giska að hún væri eftir John Williams.
Líklega var T.E. Lawrence ekki jafn furðulegur og hann er í túlkun Peter O’Toole (sem er líka 30cm hærri en maðurinn var í raun). Eins og oft (en ekki alltaf) gerir söguleg ónákvæmni Lawrence of Arabia að betri mynd. Persónan með undarlegustu hetjum kvikmyndasögunnar. Furðufugl með Messíasarduld. Blá augu O’Toole leikur annað aðalhlutverk kvikmyndarinnar.
Ef fylgst er vel með sjáum við að kvikmyndin leyfir sér að vísa reglulega óbeint í (óstaðfesta) samkynhneigð Lawrence. Auðvitað var ekki hægt að flagga slíku á sínum tíma en því er samt laumað með.
Þegar Lawrence hefur ferð sína kynnist hann eyðimörkinni sem leikur hitt aðalhlutverkið. Engin önnur mynd hefur náð að endurtaka þetta. Á stóru bíótjaldi er auðnin algjör. Þetta eru ekki nokkrar sandöldur heldur banvænt eyðilendi þar sem manneskjur eru á stærð við pöddur.
Atriðið þar sem við hittum persónu Omar Sharif byrjar að gefa okkur hugmynd um þennan skala. Það sýnir okkur um leið hve fullkomlega vonlaus hugmynd það er að ætla að sjá þessa kvikmynd á sjónvarpsskjá. Skalinn sem bíótjaldið getur sýnt hverfur um leið og myndin er minnkuð.
Lawrence of Arabia er oft sögð vera epísk mynd. Það gefur til kynna að sagan sé stórbrotin. Hún er það ekki. Hún er frekar einföld miðað við lengd kvikmyndarinnar og í samanburði við aðrar epískar myndir David Lean. Stundum gerist ekkert í lengri tíma. Og það er snilldin við myndina.
Eyðimörkin kallar augljóslega á samanburð við kvikmynd frá þessu ári, Dune 2. Sú mynd er líka mjög löng. En það gerist alveg rosalega margt í henni. Satt best að segja alltof mikið. Eyðimörkin í þeirri mynd er aldrei jafn alltumlykjandi og í Lawrence of Arabia.
Auðvitað er helsti galli myndarinnar að öll aðalhlutverkin, að Omar Sharif undanskyldum, eru í höndum hvítra manna með dekkta húð. Frekar vandræðalegt. Atriðin þar sem Lawrence er látinn eða álitinn kjánalegur í arabískum klæðnaði eru reyndar frekar skondin í ljósi þess að myndin er uppfull af vestrænum leikurum sem eru að gera nákvæmlega það sama.
Það kemur því kannski á óvart að myndin er að mestu leyti hliðhöll Aröbum. Það er ekki alltaf gefin sanngjörn mynd af raunverulega fólkinu sem upplifði þessa atburði. Sumir Arabarnir eru sýndir sem einfaldir, grimmir og/eða gráðugir.
Sögulega lexían sem við fáum er samt ekki af hvíta bjargvættinum og innfæddu barbörunum heldur af því hvernig Frakkar og Bretar sviku Araba. Við lifum enn með þau áhrif sem þetta hafði á Mið-Austurlönd.
Myndin sem heild er snilld og ég á erfitt með að skilja kvikmyndaunnendur sem létu ekki sjá sig þarna. Þið þurfið að sjá þessa mynd á bíótjaldi. Vonandi verður hún sýnd aftur.
Sonurinn var líka hrifinn af myndinni og sagði mér að eftir á að hann hefði eiginlega ekkert hugsað um stærðfræði á meðan hann horfði. Sem er afrek nú um mundir.
Maltin gefur fjórar stjörnur.