2001: A Space Odyssey er ein af stærstu myndum kvikmyndasögunnar. Ég sá hana á túbusjónvarpi og þótti ekki mikið til koma.
Ég var til í að gefa henni annan séns. Í gær var hún sýnd í Sambíóunum Egilshöll og fékk Gunnstein með.
Þó að það hafi ekki verið bókstaflega uppselt á myndina var setið í nær öllum sætum. Mig grunar að einhver hluti hópsins hafi verið gaurar sem hafa kokgleypt gervigreindarruglið sem er í gangi í dag.
Ég er alltaf svo hissa á fólki sem mætir seint á (sérstaklega svona klassískar) myndir. Satt best að segja væri best að loka bara á fólk rétt áður en myndin er sett á stað. Það var sumsé verið að troðast fyrir framan okkur þegar upphafsatriðið fræga var í fullum gangi.
Um leið og myndin fór af stað varð mér ljóst að ég hefði varla séð hana í raun áður. Þetta var allt önnur reynslu. Þegar „Dögun mannkyns“ náði hápunkti sínum fékk Also Sprach Zarathustra að njóta sín algjörlega.
Það var ekki bara tónlistin sem naut sín betur í hljóðkerfinu því allskonar hljóð og tónar byggja upp stemminguna. Ef ég hefði verið að horfa á myndina heim þá hefði ég án efa lækkað á nokkrum tímapunktum af því að hljóðrásin var nærri óþægileg og hefði jafnvel truflað nágranna.
Tæknibrellurnar í 2001 eru ennþá áhrifaríkar, allavega þær sem sýna geimskipin og sérstaklega inn í því stóra. Ég veit hvernig margt af þessu var gert en þetta er samt ótrúlega flott. Star Wars (upprunalega útgáfan) vann afrek þegar kom að því að sýna geimbardaga en stenst ekki samanburð við það sem gerist inn í þessum skipum.
Auðvitað eru tæknibrellurnar í 2001 grunnurinn að ótal samsæriskenningum um að Stanley Kubrick hafi falsað tungllendinguna. Ætli það hafi líka verið slíkir rugludallar að fylla salinn?
Þó „ofskynjunaratriðin“ í lok myndarinnar séu líka góð þá grunar mig að þau hafi verið mikið flottari á mælikvarða ársins 1968. Fólk á þeim tímum hefði ekki ósjálfrátt borið litadýrðina saman við skjásvæfur úr Windows 95.
Ég útskýrði fyrir Gunnsteini að skammstöfunin HAL væri að öllum líkindum stafrófsleg vísun í IBM (H-I/A-B/L-M) … og síðan þurfti ég að útskýra fyrir honum hve stórt það fyrirtæki hafi verið í tölvubransanum á sínum tíma.
HAL: I’m sorry, Dave. I’m afraid I can’t do that.
Gervigreindin HAL virkar betur sem andstæðingur heldur en spá um tölvur framtíðar. Auðvitað hefur verið apað eftir þessu í ótal kvikmynd og sjónvarpsþáttum. HAL ber líklega töluverða ábyrgð á því margir eru ginnkeyptir fyrir ýkjusögum af „gervigreind“ samtíma okkar. Var eitthvað af því fólki líka í salnum?
Annars ættum við kannski líka að kenna Kubrick um upprétt myndbönd. Það er nefnilega eitt atriði í myndinni sem sýnir að rás 12 af BBC sendir út í háskjá. Auðvitað skondið í mynd sem treystir svo mjög á breiðtjaldið.
2001 hlýtur að vera ein af þeim myndum sem mest hefur verið vísað í í öðrum kvikmyndum. Barbie (2023) er nýlegasta dæmið sem ég man eftir. Sjálfur fattaði ég núna að til dæmis að það eru vísanir í þessa í sjónvarpsþáttunum Community (2009-2015).
Satt best að segja mundi ég mjög takmarkað eftir söguþræði myndarinnar. Meðal annars var ég nærri alveg búinn að gleyma því sem gerist milli „Dögunnar“ og Júpíterfarsins.
Ofskynjunaratriðið heillaði mig ekkert þegar ég sá það á túbusjónvarpsskjá. Á hvíta tjaldinu fékk það að njóta sín.
Gaur sem satt í röðinni fyrir framan mig ákvað að hann þyrfti alveg endilega að taka upp litadýrðina á símann sinn, sem var ákaflega truflandi í myrkum salnum. Ég sparkaði tvisvar í sætið hans.
Ég skil fólk sem tekur eitthvað upp á tónleikum af því það er einstakur atburður sem verður aldrei endurtekinn nákvæmlega eins. Af hverju að gera þetta í bíó? Það er hægt að nálgast myndina á annan hátt.
Bláendalok myndarinnar var stórkostlegt að sjá á stóra tjaldinu. Þú veist þegar X er að skoða Y í geimnum. Frábært. Ég tók undir klappið þegar nafn Kubrick birtist.
Sambíóin ætla víst að endursýna myndina þannig að þið hafið ennþá tíma til að sjá myndina á stóra tjaldinu.