Snemma á árinu stakk Hafdís systir upp á því við mig að við myndum halda upp á afmæli mömmu með því að fara saman í ferð til London. Hún hefði orðið sjötug þann 11. nóvember.
Við Eygló fórum út á föstudegi. Öll börn voru skilin eftir heima og því gátum við snarað Sóleyju Önnu frænku í að vera með strákana. Hún fékk líka bílinn okkar sem virkaði fínt því við gátum bara lagt honum við BSÍ og síðan sótt hann aftur þegar við komum heim með rútunni af flugvellinum.
Það er lítið um flugið að segja. Ég þyrfti alltaf að muna að vera með tyggjó þegar ég flýg því hellurnar geta verið erfiðar (aðallega af því ég heyri svo lítið áður en eyrun jafna sig). Lukkulega var Eygló með slíkt þarfaþing.
Þegar ég fer til London reyndi ég að stilla því þannig upp að ég geti farið beint í neðanjarðarlestina af Heathrow og komið upp á þeirri stöð sem næst er hótelinu. Núna var Earl’s Court sú stöð.
Við gátum ekki innritað okkur strax þannig að við settum farangur í geymslu og skruppum í verslunarmiðstöðina Westfield. Það tók lengri tíma en ég hélt en allavega náði ég að fá tvennar buxur, jakka og tvo UHD bluray diska.
Þegar við komum til baka var okkur vísað á herbergið okkar. Í kjallaranum. Okkur var sagt að við gætum beðið um annað herbergi daginn eftir ef við værum ósátt.
Til þess að komast í herbergið þurfti að leggja á minnið ótal beygjur, fara í gegnum tvær eldvarnarhurðir og niður stiga (hvers vegna þá að auglýsa að það sé lyfta).
Herbergið var fínt að mestu leyti. Mjög stórt. Það var hins vegar erfitt að ná réttu hitastigi, aðallega vegna þess að flest hafði máðst út af hitastillinum. Við gátum líka heyrt í neðanjarðarlestinni undir okkur. Það hefði farið illa í mig ef ég hefði ekki verið með eyrnatappa. Ekki nenntum við samt að skipta um herbergi, óþörf fyrirhöfn fyrir lítinn ávinning.
Við höfðum ekki mikinn afslöppunartíma því við þurftum að koma okkur í leikhús. Það gekk reyndar svo hægt að við enduðum inn á McDonald’s til þess að geta borðað hratt.
Reykjavík (Hampstead Theatre)
Það er hálfvonlaust að mæla með leikriti sem er bara í gangi í þessum mánuði en ef þið farið þangað og hafið tækifæri ættuð þið að kíkja. Þið mættuð þá líka sleppa því að lesa það sem ég skrifa um leikritið og leyfa því að koma á óvart.
Þegar kom að því að velja leikhússýningu fyrir þessa ferð var margt í boði. Sumt var samt augljóslega eitthvað sem við hefðum viljað fara á með Gunnsteini. Við fundum leikrit sem er sýnt í takmarkaðan tíma.
Reykjavik snýst um fiskveiðar breskra sjómanna við Íslandsstrendur. Árið er 1975. Leikritið byrjar í Hull en eftir hlé förum við til Reykjavíkur.
Leikmyndirnar voru tvær, skrifstofa útgerðarinnar og móttaka á reykvísku hóteli. Eygló sagðist vera óvön slíkum einfaldleika þar sem íslensk leikhús væru yfirleitt sífellt að skipta öllu út. Það virkaði allavega vel þarna.
Mig grunar að Bretar viti ekki hve mikla samúð Íslendingar hafa með þeim sjómönnum sem misstu lífsviðurværi sitt þegar við færðum út landhelgina. Það var því heillandi að sjá söguna frá sjónarhóli þeirra.
Af öllu sem kom fyrir í leikritinu þótti mér áhugaverðast að heyra af “The Widow’s Walk”. Samkvæmt leikritinu var það hálfgerð píslarganga þar sem útgerðarstjórinn heimsótti ekkjur þeirra sjómanna sem höfðu farist og til að tilkynna þeim það formlega (þó þær hefði líklega vitað það þá þegar).
Þegar sviðsmyndin af reykvíska hótelinu var afhjúpuð hló ég. Ekki af því að þetta leit gervilega út. Þvert á móti fannst mér eins og margt þarna væri ákaflega kunnuglegt. Einhvern veginn fannst mér stafagerðin sem var notuð á skiltin (“móttaka” osfrv.) hljóta að hafa verið mikið notuð á Íslandi.
Síðan voru brennivínsflöskur á sviðinu. Bjórbannið kom einmitt mikið til tals (flest sögulega rétt) enda bresku sjómennirnir vanari þeim drykk. Í bakgrunninum var í gangi íslenskur fréttaflutningur af útfærslu landhelginnar í tvöhundruð mílur.
Leikkonan Sophie Cox fór með hlutverk eina Íslendingsins í leikritinu, hótelstjóra að nafninu Einhildur (raunverulegt en sjaldgæft nafn). Við höfum væntanlega flest heyrt vonlausar tilraunir erlendra leikara sem reyna að tala með íslenskum hreim, yfirleitt hljóma þeir bara eins og Svíar. Sophie náði þessu hins vegar bara mjög vel. Framburður hennar var reyndar frekar harður þannig að ég hefði giskað að persónan væri að norðan en ekki Reykvíkingur.
Ýmislegt yfirnáttúrulegt kemur við sögu í leikritinu. Það virðist vera svipað með fiskveiðisamfélögin í Hull og Íslandi að trúarbrögð skipta minna máli en hjátrú af ýmsum toga. Allavega ef við miðum við sögurnar sem sjómennirnir sögðu.
Þegar Einhildur sagði sögu varð Djákninn á Myrká fyrir valinu. Það var kannski veikasti bletturinn á íslenska hlutanum. Sagan var töluvert breytt og var til að mynda prestur í aðalhlutverki.
Laugardagur
Við fengum tilboð frá Önnu um að vera með í kirkjuskoðun snemmmorguns á laugardag en við voru ennþá þreytt þannig að í staðinn ráfuðum við um. Uppáhalds verslunarbletturinn minn er auðvitað þar sem hægt er að komast í Forbidden Planet (nördabúð), Orc’s Nest (spil) og Fop (tónlist og kvikmyndir). Þegar þessar tvær fyrrnefndu búðir eru heimsóttar sést auðvitað hve góð búð Nexus er.
Við rákumst síðan á Foyle’s þarna rétt hjá og ég rölti um átta hæðir af bókum (og tímaritum og öðru sem finnst í bókabúðum). Ég fann þar eina bók sem ég hef reynt að finna í ýmsum búðum. Gott úrval en yfirþyrmandi.
Á leið á hótelið fengum við tvo valkosti.
- Horfa á fótbolta á bar með Önnu systur, Martin mág og Óla móðurbróður.
- Borða með Hafdísi systur og Mumma mág. Við vorum svöng og fótbolti er mér ekki kær.
Maturinn var á veitingastað samtengdum hótelinu okkar. Þar var malaískur (vona að ég muni að fletta þessu upp) matur. Ég reyndi eitthvað nýtt og fílaði ekki.
Eftir mat ákváðum við að finna bar þar sem hægt var að setjast niður og spjalla. Við vorum heppin að finna Checkmate. Þar voru fallegir og þægilegir leðursófar. Fótboltinn var reyndar á sjónvarpsskjánum en hljóðstyrkurinn var mjög hóflegur. Mæli alveg með.
Þegar við komum aftur á hótelið hittumst við öll saman í fyrsta skiptið og ákvörðuðum plön fyrir næsta dag.
Sunnudagur
Camden Town hef ég af einhverjum ástæðum ekki heimsótt áður. Við byrjuðum daginn á að koma okkur þangað. Markaðurinn var skemmtilegur og ég hefði án efa getað eytt töluverðum tíma í að ráfa þar um en það gátum við ekki.
Við höfðum bókað siglingu um skipaskurð. Báturinn var ekki sá mest traustvekjandi sem ég hef farið í en svosem ekkert hættulegur að sjá. Við lögðum af stað frá Camden og fórum að Little Venice.
Leiðsögumaðurinn okkar talaði aðallega um bátamenningu Englands. Hann útskýrði fyrir okkur hvernig auðjöfrar hafa gert þeim fátækari ákaflega erfitt fyrir með því að kaupa upp bátalægi í London. Við fengum líka að heyra um muninn á þeim sem raunverulega nota bátana sína og þeim sem búa í þeim og fara aldrei neitt. Hann hálfspáði því að margir þeirra báta myndi sökkva fyrr eða síðar vegna vanrækslu. Áhugavert.
Í bátnum varð ég fyrir því óláni að annað glerið datt úr gleraugunum mínum. Lukkulega fann ég samt skrúfuna. Þegar við komum að veitingastað varð ég glaður að sjá steikarhnífa með frekar hvössum oddi. Það var ekki auðvelt en ég notaði hnífinn til þess að skrúfa gleraugun aftur saman.
Við fengum stutt stopp á hótelinu áður en kom að aðalatriði ferðarinnar.
ABBA ferðin
Ætli flestir hafi ekki heyrt um ABBA Voyage. Þar eru meðlimir hljómsveitarinnar endurskapaðir í þrívídd.
Líklega hefði ég ekki valið sjálfur að fara á þess sýningu en ég mótmælti ekkert. Ég er auðvitað mjög hrifinn af ABBA. Þetta er líka hljómsveit sem á næstum því jafn mörg þekkt lög og Queen. Ég hef samt ekkert kafað mikið meira en ABBA Gold og ABBA More Gold.
Helsta umkvörtunarefni mitt er hve skær ljósin voru á köflum. Ég þurfti að loka augunum í allavega tveimur lögum.
Þrívíddin virkar merkilega vel. Meðlimir hljómsveitarinnar léku sig sjálf klædd sérstökum göllum með borðtenniskúlum. Svona eins og eru notaðar í öllum myndum sem treysta mikið á tölvugrafík.
Áhorfendur sjá hins vegar fólkið eins og það var þegar ABBA var upp á sitt besta. Þær tölvugerðu manneskjur köfuðu samt stundum djúpt í “óþægindadalinn” (uncanny valley). Persónurnar voru sumsé ákaflega nálægt því að vera raunverulegar þannig að gervileikinn varð frekar áberandi.
Líklega eru húð og hár bestu dæmin um þennan gervileika. Skegg- og skeggbroddar virkuðu oft mjög óraunverulega. Þá var húðin á fólkinu stundum undarlega slétt. Það var samt alls ekki alltaf og bara þegar fólk var í nærmynd.
Mér fannst gervifólkið njóta sín best þegar lögmál raunheimsins voru hunsuð eða þegar gervileikinn var settur í aðalhlutverk. Í einu atriði eru allir í hálfgerðum Tron-galla sem leit flott út.
Ég held satt best að segja að sýningin væri skemmtilegri ef meira væri leikið sér með fáránleika þess að hafa þrívíddarskapaðar manneskjur. Ég hefði jafnvel byrjað á því að sýna meðlimi hljómsveitarinnar þegar þau tóku upp hlutverk sín og sjá umbreytinguna sem verður þegar tölvugrafíkin er sett ofan á þau.
Þó ég hafi verið sáttur við fáránleikann var ég ekki alltaf hrifinn af því þegar persónurnar þökkuðu fyrir klapp sem þær gátu ekki heyrt. Ég var mjög feginn að uppklappið var fyrst og fremst tileinkað tónlistarfólkinu sem var raunverulega á sviðinu.
Lagavalið var ágætt. Ég þekkti ekki alveg öll lögin nægilega vel til að syngja með. Flest uppáhaldslögin mín voru þarna. Þar er auðvitað Thank You For The Music efst á blaði. Við gátum samt talið upp ýmis lög sem hefðu mátt vera með í sýningunni.
Eftir sýningu fórum við aftur í átt að hótelinu. Við tókum fyrst leigubíla til að koma okkur að lestarstöðinni. Við Eygló, Anna og Martin vorum saman í bíl og þegar bílstjórinn sagði okkur að það væri mikil umferð nálægt ákvörðunarstað okkur sagði ég ákveðið að við þyrftum að fara þangað til að hitta fólk.
Þegar við komum á lestarstöðina fengum við strax að heyra að þau hin hefðu endað á annarri stöð (með svipað nafn). Við hittumst samt bara á endastöðinni okkar.
Þann 11. nóvember árið 1918 tók vopnahlé gildi í heimsstyrjöldinni fyrri. Því var minnst þennan sunnudag (degi á undan) í Englandi. Við vorum sumsé umkringd fólki með næld á sig rauð gerviblóm. Því miður er dagurinn að miklu leyti notaður til að vegsama breska herinn frekar en að minnast hryllingsins.
Í neðanjarðarlestinni sáum við mann með ótal orður monta sig af því hvernig hann hefði unnið sér fyrir þeim á Norður-Írlandi, Afghanistan og Írak. Ég fór að raula með sjálfum mér írskt lag sem fjallar um frelsisstríðið.
Come out ye black and tans
Come out and fight me like a man
Show your wife how you won medals down in Flanders
Tell her how the IRA
Made you run like hell away
From the green and lovely lanes of Killashandra
Við áttum pantað borð á Dishoom Kensington sem er með indverskan mat. Tónlistin þarna var truflandi hávær. Við gátum lítið spjallað (ég útlistaði álit mitt á sýningunni og Anna spurði mig aftur daginn efir því hún heyrði ekkert).
Þjónninn okkar var voðalega “sniðugur” og þótti gaman að tala. Þegar við svöruðum að við hefðum ekki áður borðað á Dishoom ákvað hann að halda yfir okkur langa ræðu sem virtist gera ráð fyrir að við hefðum aldrei borðað indverskan mat áður. Fæst okkar heyrðu mikið hvað hann var að tala um. Síðan tók heila eilífð að fá hann til að koma aftur þegar við vorum tilbúin að panta.
Maturinn var samt ákaflega góður. Ég held að það hafi verið samdóma álit (en kannski heyrði ég ekki kvartið fyrir tónlistinni). Þetta hefði verið fínt ef ég væri einn með heyrnartól.
Mánudagurinn (afmælisdagurinn)
Við byrjuðum mánudaginn sitt í hverju lagi. Eygló vildi fá að sjá það sem hún áleit alvöru London þannig við röltum frá Piccadilly Circus og yfir Thames að British Film Institute.
Við fórum algjörlega óvart í gegnum undirgöng sem eru greinilega tileinkuð vegglist. Ákaflega skemmtilegt.
Áður en ég fór út skoðaði ég dagskrána í IMAX-sal BFI. Kvöldið áður en við komum var verið að sýna The Fall (2006) ásamt smá spjalli frá leikstjóra myndarinnar. Ég hefði viljað vera þar. Í staðinn var bara verið að sýna myndir sem ég hef ekki áhuga eða myndi vilja sjá með strákunum.
Búðin hjá BFI er með gott úrval af UHD-diskum, meðal annars frá Criterion. Ég reyndi að fara í gegnum allt. Því miður voru DVD, bluray og UHD allt saman í bland. Það rifjaðist upp fyrir mér hvernig það var á fara á videoleigur og þurfa að passa sig að velja ekki Betamax. Ég fann samt tvo diska.
Eftir meira ráf enduðum við á hótelinu að hitta alla. Áfangastaður okkar var veitingastaðurinn Duck & Waffle. Við vorum næstum búin að ganga fram hjá staðnum en Anna systir hafði verið búin að grandskoða þetta áður og stoppaði okkar á réttum stað. Skiltið fyrir staðinn var frekar lítið.
Þegar við komum inn áttaði ég mig á nokkru. Staðurinn var ofarlega í byggingunni. Nánar tiltekið á fertugustu hæð. Ég er ekki aðdáandi þess að vera hátt uppi. Lyftan dreif okkur hratt upp og það hefði örugglega heillað marga að sjá útsýnið. Ég fékk pínkulitlar hellur fyrir eyrun.
Staðurinn er fínni en þeir sem ég vel venjulega. Vínseðill var líka umtalsvert lengri en matseðillinn.
Meðal þess sem hægt var að panta sér var “önd og vaffla” sem er það sem það heitir. Ég tók hins vegar eftir nokkru sem hét “Wanna be Duck and Waffle”. Þar var talað um eitthvað sem hét “hæna skógarins”. Ég vissi ekkert og leitaði á netinu. Þetta er víst sveppur.
Ég endaði á að panta mér gervihænuönd með vöfflu. Smá áhætta en það borgaði sig í þetta sinn. Þetta var alveg frábært á bragðið. Mjög erfitt að lýsa. Ég fékk mér síðan karamelluvöfflu í eftirrétt sem var svo góð að ég gleymdi að borða hægt.
Við enduðum á að þurfa að drífa okkur út. Við náðum varla að taka systkinamynd sem við höfðum stefnt að. Þær enduðu með að vera frekar rauðar.
Ástæðan fyrir því að við vorum að flýta okkur var að við Eygló, Anna, Martin og Óli vorum að fara í Jack The Ripper-göngu. Við kvöddum Hafdísi og Mumma og flýttum okkur áleiðis. Lukkulega var Whitechapel ekki fjarri.
Þegar ég var fullungur sá ég einhverja mynd um Kobba kviðristu. Michael Caine lék aðalhlutverkið. Eins og margir hef ég haft áhuga á málinu og las á sínum tíma teiknimyndasöguna From Hell eftir Alan Moore (mikið betri en myndin en samt alveg kolröng sögulega séð). Síðustu tuttugu ár rúmlega hef ég samt fjarlægst sögur af sönnum glæpum.
Leiðsögumaðurinn okkar var mjög ungur. Hann sagðist þó vera með sagnfræðigráðu frá Oxford. Hann var líka frekar spes.
Þó ég geti ekki algjörlega dæmt hve sögulega nákvæmur leiðsögumaðurinn hafi verið þá veit ég að hann var ekki alveg á sömu skoðun og meginlínan í þessum fræðum. Hann valdi hæstu tölu yfir möguleg fórnarlömb (annars hefði gangan verið mikið styttri).
Það var samt fleira tengt kviðristunni í gangi á svæðinu. Við rákumst ítrekað á annan hóp. Leiðsögumaðurinn þar var með fínan færanlegan skjávarpa til að sýna gamlar myndir. Það var greinilega stirt samband milli þessara tveggja manna. Ég heyrði aðeins í hinum og fannst hann miklu yfirlýsingaglaðari en okkar.
Við fengum að sjá myndir á síma leiðsögumannsins. Ég afþakkaði reyndar pent að sjá myndir af fórnarlömbunum. Ég man eftir að hafa séð eina slíka sem fór mjög illa í mig á sínum tíma. Það var ekki heldur gaman að heyra allar lýsingarnar á morðunum.
Bestu hlutarnir voru, að mínu mati, að sjá vinnuhæli og gististaði sem ég hef aðallega lesið um í skáldsögum þessa tíma. Skröggur spyr einmitt hvort það sé ekki til “vinnuhæli og fangelsi” fyrir fátæka fólkið. Við fengum lýsingar sem undirstrikuðu hvers vegna sumir vildu frekar deyja en fara þangað.
Við afrekuðum ekkert eftir ferðina. Komum okkur bara á hótelið.
Þriðjudagur
Við fórum beint á flugvöllinn á þriðjudagsmorgni. Mjög þægilegt að fara bara beint á Earl’s Court og upp í lest.
Við gerðum afdrifarík mistök þegar við fórum í gegnum öryggisskoðun á Heathrow við völdum langsamlega hægustu röðina með pirraðasta starfsfólkinu. Þau voru endalaust að benda okkur á að setja alla vökva í poka ofan á farangrinum og sögðu að tafirnar voru út af fólki sem gerði slíkt ekki (en væntanlega alls ótengt því að einungis ein af þremur stöðvum voru opin á þessu svæði).
Eitthvað varð til þess að ég var tekinn fyrir og rannsakaður betur. Starfsmaðurinn varð eitthvað pirraður á mér þegar ég náði ekki öllu sem hann ældi út úr sér til að leiðbeina mér.
Almennur pirringur starfsfólks var samt kannski oft réttlætanlegur því maðurinn á undan mér í röðinni var tekinn fyrir vegna þess að hann var með vatnsflösku í handfarangrinum.
Annars er lítið að segja af flugi. Rútuferðin var líka þolanleg þó við höfum þurft að bíða fulllengi í bílnum. Við vorum alveg sátt við að aka hægar um Reykjanesbrautina enda töluverður vindur.
Drengirnir voru bara hressir þegar heim var komið.