Mér þótti ólíklegt að Challengers (2024) væri mynd fyrir mig. Auglýsingar og sýnishorn voru fráhrindandi. Síðan komu topplistar og margir settu hana mjög ofarlega þannig að ég ákvað að prufa.
Challengers er ekki mynd fyrir mig. Mér þótti tímaflakkið óhóflegt. Aðalpersónurnar heilluðu mig ekki. Þau voru öll óþolandi, spilandi með hvort annað innan vallar og utan. Ekki einu sinni Zendaya, sem var það langsamlega besta við Dune myndirnar, náði til mín nema rétt í kringum slysið.
Ég sá marga hæla tónlistina en hún gerði ekkert nema að pirra mig. Flúmbúm.
Myndin var of löng og hæg. Það er nútímaglæpur kvikmyndaiðnaðarins. Öll þessu flottu skot og hægspilun gerðu ekkert fyrir mig. Mér var orðið sama um hvernig keppnin endaði, ég vildi bara að hún myndi klárast.
Ég ætlast ekki til þess að allar myndir séu fyrir mig og ég ætlast ekki að allir séu hrifnir af sömu myndum og ég. Þegar svona myndir enda á topplistum held ég að það hljóti að vera eitthvað meira við þær en bara það sem sátt á yfirborðinu. Það á ekki við um þessa Challengers. Auglýsingarnar sýndu hvernig mynd þetta er.