Forrest Gump (1994) 🤏 {7-ø-ø-ø}

Lífið er konfektkassi er líklega frægasta línan úr Forrest Gump en ég man oftar eftir að hafa kallað „Run Forrest, Run“ á eftir hlaupandi félögum mínum.

Árið 1994 var frábært bíóár. Það voru bæði margar frábærar og eftirminnilegar kvikmyndir sýndar og frumsýndar. Það að ég var fimmtán ára ýkir kannski upp þessa tilfinningu en hérna eru nokkur dæmi.

Bullets Over Broadway (1994), Clear and Present Danger (1994), Clerks (1994), Dumb and Dumber (1994), Eat Drink Man Woman (1994), Ed Wood (1994), Fánalitaþríkurinn (1993-1994), Forrest Gump (1994), Four Weddings and a Funeral (1994), Heavenly Creatures (1994), Immortal Beloved (1994), Interview with the Vampire (1994), Legends of the Fall (1994), Léon: The Professional (1994), Little Women (1994), Natural Born Killers (1994), Nell (1994), Pulp Fiction (1994), Quiz Show (1994), Reality Bites (1994), Serial Mom (1994), Speed (1994), The Hudsucker Proxy (1994), The Lion King (1994), The Madness of King George (1994), The Mask (1994), The Shawshank Redemption (1994), True Lies (1994), Reality Bites (1994) …

Góðar og slæmar en fáar eru jafn umdeildar eftir á og Forrest Gump. Það að myndin hlaut ótalin (nenni ekki að telja) Óskarverðlaun, þar á meðal sem sú besta, er líklega stærsta ástæðan. Flestir vilja meina að Shawshank, sem sökk í kvikmyndahúsum, hefði átt að vinna … en ég segi, og sagði þá, Pulp Fiction. Ég horfði á Forrest Gump aftur og hef nokkur orð um myndina að segja.

Þó myndin hafi verið meira gagnrýnd í seinni tíð þá var strax bent á líkindi hennar við Zelig (1983) og Being There (1979) sem báðar fjalla um, á mismunandi hátt, menn sem álpast inn í mannkynsöguna.

Leikstjóri myndarinnar Robert Zemeckis hafði áður gert margar vinsælar myndir í röð. Romancing the Stone (1984), Back to the Future þríleikinn og Who Framed Roger Rabbit? (1988). Margir hafa væntanlega gleymt, heppilega fyrir hann, að síðasta myndin sem hann framdi á undan Gump var hin fyrirlitna Death Becomes Her (1992).

Upphaflega var Forrest Gump bók eftir Winston Groom. Það er langt síðan ég las hana en ég man að hún var, ólíkt myndinni, beitt. Þar var líka meira kynlíf og ofbeldi. Margt sem hægt er að gagnrýna við myndina kemur til vegna þess að hún hefur mýkt söguna.

Strax og tónlist Alan Silvestri byrjaði að hljóma rifjuðust upp fyrir mér hlýjar tilfinningar í garð myndarinnar. Upphafsnóturnar sýna hve mjúk hún er, einlægt og hugljúf … eða einföld sykurvella.

Ég var mjög hrifinn af, og frekar ógagnrýninn á, Forrest Gump á sínum tíma. En ég var sérstaklega hrifinn af tónlistinni, ekki bara framlagi Silvestri heldur líka lögunum sem hljóma undir vegferð titilpersónunnar í gegnum eftirstríðsárin í Bandaríkjunum fram á níunda áratuginn. Rokkið sem heyrist er oft mjög beitt samfélagsádeila.

Höskuldar frumundan.

Saga Forrest Gump byrjar þegar hann var ungur drengur með lága greindarvísitölu í Alabama. Nafn hans er vísun í stofnanda Ku Klux Klan. Líklega virkaði þetta betur í bókinni. Í staðinn fáum við fyrstu augljósu tæknibrelluna sem myndin er þekkt fyrir. Tom Hanks er klipptur inn í rasistaáróðurskvikmyndina Birth of a Nation (1915). Bara fyndni. Rasismi þyrfti að vera áberandi í kvikmynd sem fjallar um Suðurríki Bandaríkjanna á ólgutímum en Forrest er of einfaldur til að taka eftir slíku. Við fáum glefsur úr þeirri sögu en ekkert bitastætt.

Sú gagnrýni hefur oft heyrst á kvikmyndina er að hún sé íhaldsáróður. Að hún tilbiðji „hefðbundin“ gildi sem sé í andstöðu við róttækni sjöunda og áttunda áratugarins. Ég er ekki sammála því. Vandamál myndarinnar er að hana skortir gagnrýna söguskoðun sem er auðvelt að rugla saman við hægrisinnaðar skoðanir.

Við fáum strax mótrök gegn því að hefðbundin gildi séu sett á stall í myndinni. Þegar senda á Forrest í sérskóla vegna greindarvísitölu hans stoppar mamma hans það af með því að múta skólastjóranum með kynlífi. Það er frekar óhefðbundin nálgun á fjölskyldugildin.

Ef Forrest á að vera táknrænn fyrir einfaldleika góðra bandarískra gilda þá er vinkona hans Jenny hið róttæka andóf. Þau kynnast í skólarútunni á fyrst skóladeginum og verða strax bestu vinir. Hennar fjölskylduaðstæður er erfiðar, og það er óþægilegt þegar Forrest lýsir „ástúðlegum“ föður hennar.

Forrest álpast í gegnum lífið. Hans helsti hæfileiki er að hlaupa (í bókinni er hann líka ákaflega sterkur sem passar illa við líkamsgerð Hanks). Hann álpast í háskóla á skólastyrk og síðan álpast hann í stríð.

Að vissu leyti er Víetnam eitt helsta svarið við því að myndin standi fyrir hægrisinnuð gildi. Þó stríðið sé ekki gagnrýnt nema mögulega fyrir tilgangsleysi þá kemur herinn ekki sérstaklega vel út. Forrest sjálfur hafði ekki vit á að forðast herinn og kynnast liðforingja sem er að reyna að uppfylla fjölskylduhefðina með því að deyja í bandarísku stríði.

Í fyrsta atriðinu í Víetnam heyrum við Fortunate Son með Creedence Clearwater Revival. Texti lagsins fjallar um að synir hinna ríku og valdamiklu (s.s. Donald Trump og George W. Bush) þurfi ekki að fara og deyja í stríði. Líkt og myndin þá er samúðin með hermönnunum en ekki fólkinu í Víetnam. Það sjást engin af þeim hversdagslegu voðaverkum sem voru framin daglega af bandarískum hermönnum. Ég held að það sjáist ekki framan í einn einasta Víetnama í myndinni allri. Við sjáum Forrest bara skjóta í áttina að trjám. 

Eina svarta persónan sem fær eitthvað pláss er hermaðurinn Bubba (sem á það sameiginlegt með Red í Shawskank að hafa upphaflega verið hvítur .. sem skýrir nöfn þeirra beggja). Persónuleiki hans er áhugi á rækjum og að vera á svipuðu greindarstigi og Forrest. Hann uppfyllir síðan klisjuna um að svarti maðurinn deyi. Liðsforinginn Dan missir hins vegar fótleggi sína við hné og verður bitur alkahólisti sem hatar guð.

Þegar Forrest Gump hlýtur orðu fyrir hetjudáðir (ekki fyrir að skjóta neinn samt) endar hann í miðjum mótmælum og flytur ræðu um Víetnamstríðið. Við fáum ekki að heyra ræðuna en þó sjáum við að Abbie Hoffman var mjög snertur sem bendir til þess að hún hafi verið gagnrýnin.

Frá Bubba fékk Forrest þá hugmynd að kaupa sér rækjuveiðib´át. Það gengur illa hjá honum en hann fær Dan í lið með sér og meira að segja í kirkju. Lukkulega kemur fellibylurinn Carmen og þurrkar út alla rækjuútgerð á svæðinu. Dan finnur guð og þeir verða báðir milljónamæringar.

Satt best að segja er fellibylurinn sá hluti sögunnar sem ég á erfiðast með að sætta mig við. Ekki af því það sé tilviljanakenndur atburður heldur af því að auðæfi Forrest Gump byggja á óförum hundruða eða þúsunda. Ég fæ alltaf smá óbragð af þeim hluta myndarinnar.

Í seinni tíð er Robert Zemeckis þekktastur fyrir tæknibrellurnar sem hann notar í kvikmyndum sínum. Sú vegferð var auðvitað hafin þegar kom að Gump en það er auðvelt að gleyma því að hluti af markaðsetningunni á myndinni var áhersla á tæknibrellurnar.

Augljósu og frægu brellurnar eru þegar Tom Hanks er skeytt inn í raunveruleg myndskeið af forsetum Bandaríkjanna og í spjallþátt með John Lennon. Þær brellur eldast ekkert sérstaklega vel. Hins vegar er sumt sem stendur enn fyrir sínu. Aflimun Gary Sinise var framin með tæknibrellum. Sama á við um þessa fjöður sem sveimar um í upphafi og lok myndarinnar. Það er líka dapurlegt að átta sig á að Tom Hanks var bara alls ekki svona góður í borðtennis.

Við sjáum glefsur úr lífi Jenny og einstaka sinnum hvernig leiðir hennar og Forrest liggja saman. Hún er alltaf frekar óhamingjusöm og leiðist út í dóp og rótttæka pólitík. Hið síðarnefnda leiðir til frekar kjánalegs atriðis þar sem Forrest mætir meðlimum Svörtu pardusanna. Einn þeirra les yfir hausamótunum á einfeldningnum sem skilur ekkert þó er allt sem honum er sagt sannleikur um misrétti í Bandaríkjunum.

Forrest er ástfanginn af Jenny en hún vill hann ekki. Þarna er klisjan um góða gaurinn sem stelpan hunsar þrátt fyrir að hann væri miklu betri fyrir hana. ´Ég get ekki ímyndað mér að Jenny hefði verið hamingjusöm með Forrest til lengri tíma.

Samt dúlla þau sér saman, einu sinni svo ákaflega að Jenny verður ólétt án þess þó að segja Forrest frá því. Hann fer út að hlaupa en hún byggir upp líf sitt með syni þeirra … leikinn af Haley Joel Osment áður en hann varð frægur fyrir Sixth Sense (1999 – hitt stóra bíóár tíunda áratugarins).

Að lokum kallar Jenny í Forrest og upplýsir hann um son þeirra. Leikhæfileikar Tom Hanks sjást kannski best í því atriði þegar Forrest óttast að sonur hans hafi erft greindina frá honum, ekki vegna þess að hann telja gáfað fólk betra heldur að hann telji erfiðara að vera sín megin í greindarvísitöludeildinni.

Jenny upplýsir líka hafi fengið einhvern óþekktan vírus (lifrarbólgu-C í bókinn en líklega HIV í myndinni). Þau giftast og henni líður vel síðustu daga lífs síns. Samkvæmt hægrisinnuðum túlkunum á myndinni er þetta góða ákvörðunin í sorglegu lífi hennar þegar hún ákveður að taka hefðbundin gildi í sátt.

Þó ég geti gagnrýnt margt við heimsmynd Forrest Gump þá held ég að hún sé ekki hægrisinnaður áróður. Ef ég ætti að tengja hana við stjórnmálaskoðun þá myndi ég segja að hún væri miðjumoð. Hún hefur ákaflega lítið að segja um nokkuð sem gerðist á þessu tímabili í sögu Bandaríkjanna.

Ég á erfitt með að skilja það þegar hægrimenn setja Forrest Gump á stall sem fyrirmynd nema af því að þeir vilja helst kjósendur sem eru ekki færir um gagnrýna hugsun. Kannski telja þeir að hann hafi verið verðlaunaður með auðævum fyrir að leggja hart af sér. Það er ekki það sem myndin sýnir. Myndin er um mann sem álpast í gegnum konfektkassann sem er líf hans án þess að reyna að komast því hvaða bragð er af molunum áður en hann bítur í þá.

Mig minnir að Ásgeir félagi hafi einhvern tímann orðað þetta þannig að Forrest Gump væri ekki jafn góð og hún var upphaflega álitin en ekki jafn slæm og var haldið fram seinna. Það er líklega rétt. Það var frekar óheppilegt fyrir myndina að hún hafi hlotið Óskarinn á svona góðu bíóári. Henni verður alltaf líkt við Shawshank, Pulp Fiction og allar hinar stórgóðu myndir ársins 1994. Hún kemur ekki vel út í samanburðinum við þær.

Forrest Gump er gölluð mynd sem er hægt að njóta en það væru mistök að ætla að læra einhverjar lexíur af titilpersónunni eða sögunni sjálfri.