Ein af þessum myndum sem fékk ekki almenna dreifingu þannig að ártalið er á reiki. Frumsýnd 2023 en fæstir sáu hana fyrren 2024.
Síðkvöld með djöflinum fjallar um spjallþáttastjórnanda sem reynir að lokka áhorfendur með því að fá til sín í þáttinn miðil, efahyggjusinna, dularsálfræðing og andsetna stúlku. Hér er blandað hryllingsmyndaklisjunni um fundið myndefni saman við háð-heimildarmynd.
Lengst af er myndin góð og oft mjög fyndin. Hún leikur vel eftir spjallþáttum þessa tíma. En ramminn sjálfur virkar ekki vel. Spinal Tap (1984) virkar af því að hún hélt sig við ákveðin raunveruleika. Við getum trúað því að rokkhljómsveitir séu svona hégómagjarnar að þær leyfi sér að tala eins og bjánar fyrir framan myndavélar (af því það hefur ítrekað gerst).
Það virkar ekki að láta eins og einhver hafi verið með upptökuvél í gangi til þess að taka upp baksviðsplott og pælingar þáttastjórnanda og framleiðanda. Þeir hefðu aldrei leyft það. Raunveruleikinn brostinn. Myndin hefði virkað betur án þess að nota þennan ramma.
Myndin fer samt ekki af teinunum fyrren í blálokin. Það hefði mátt stoppa fyrr eða kafa dýpra. Í staðinn er endirinn voðalegt meh. Vel þess virði að horfa samt (ef fólk er ekki viðkvæmt fyrir venjulegu hryllingsmyndaógeði.
Annars er þetta áhugavert fyrir mig af því að ég þekki ágætlega til efnisins. Reyndar byrjaði sataníska kvíðakast Bandaríkjamanna ekki á fullu fyrren uppúr 1980 þegar bókin Michelle Remembers kom út. Dularsálfræðingurinn er að hluta byggð á geðlækninum sem skrifaði þá bók (og fór ótrúlega illa með skjólstæðing sinn – giftist henni að lokum) en einnig er hún innblásinn af auðtrúa vísindamönnum hjá Stanford Research Institute. Költleiðtoginn er auðvitað Anton LaVey.
Þrátt fyrir að vera sýndur sem miðill er sú persóna auðvitað loddarinn Uri Geller en efahyggjusinninn James Randi. Baksaga þess er auðvitað þegar Johnny Carson fékk töframanninn knáa með sér til að afhjúpa skeiðabeygjarann.
Þetta minnir mig auðvitað á þegar James Randi beyglaði hnífapör þar sem hann sat við hliðina á mér. Þó ég vissi vel hvernig bragðið virkaði leit þetta ótrúlega sannfærandi út.