Kneecap (2024) 👍 {13-12-11-ø}

Myndin hafði alveg farið framhjá mér en Ásgeir mælti með henni þannig að ég fann hana og horfði án þess að lesa mér nokkuð til um hana. Þannig vissi ég ekki einu sinni að myndin sé byggð á raunverulegri hljómsveit … þó ég sé nokkuð viss um að margt sé skáldað. Örlítil umsnúningur á því að fara á Anvil (2008) án þess að vita hvort það væri heimildarmynd eða leikin mynd í anda Spinal Tap (1984).

Kneecap fjallar um samnefnda rappsveit frá Belfast sem notar gellísku, í bland við ensku, í textum sínum. Það er auðvitað lítill minnihlutahópur innan bresku landamærana sem talar írsku. Í lýðveldinu eru hins vegar írskumælandi svæði og tungumálið er kennt í skólum. Ég er ekki óvanur að heyra tungumálið þar sem írska var mikið notuð í stjórnsýslu í þjóðfræðideildinni í UCC (University College Cork). Ekki hafði ég samt þor í að læra tungumálið.

Myndin er auðvitað hápólitísk og það kom sér ágætlega að þekkja vel til írskrar sögu þó það sé ekki nauðsyn. Að því leyti mætti kannski líkja henni við Derry Girls sjónvarpsþættina. Þeir þættir fjölluðum samt um tímabilið þegar vopnahléið tók gildi en þessi gerist á síðasta áratug. Rappsveitin tilheyrir sumsé vopnahléskynslóðinni.

Mörk raunveruleiki og skáldskapar eru óljós. Kneecap er kannski ekki Spinal Tap en rappsveitir hafa alltaf verið duglegar að skapa ímynd tengda glæpamennsku og ég hef á tilfinningunni að hér sé sumt sé verulega ýkt. Það er líklega tekið sjáldaleyfi, hvort sem það er í handriti eða lagatextum.

Ásgeir sagði að þetta væri „klárlega skemmtilegasta mynd ársins“. Ég er ekki alveg sammála því, það hlýtur að vera Hundreds of Beavers. En ég get alveg hiklaust mælt með Kneecap. Hún er hiklaust með betri myndum ársins.

One thought on “Kneecap (2024) 👍 {13-12-11-ø}”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *