Steve McQueen myndar ákveðna eyðu í kvikmyndaáhorfi mínu. Ég hef örugglega séð einhverjar myndir hans og langar að sjá aðrar en almennt heillar hann mig ekki. Þannig að það var ágætt tækifæri að sjá Bullitt í bíó. Það segir kannski eitthvað að ég var með yngri bíógestum (en Gunnsteinn mögulega yngstur).
Ég held ég geti alveg séð hvað heillaði fólk við þessa mynd (þó ★★★½ frá Maltin hafi líklega alltaf verið óhóflegt) en mér finnst hún ekki hafa elst vel. Hún er hægfara og fyrirsjáanleg. Það lifnar reyndar aðeins yfir henni í flottum bílaeltingaleik sem virðist hafa fundið upp á klisjum sem eru enn notaðar.
Samband hetjunnar okkar við kærustuna er frekar grunnt. Þannig missir það alveg marks þegar hún er með einhverjar áhyggjur af ofbeldinu.
Ég hef á tilfinningunni að ef ég hefði séð þessa mynd þegar ég var yngri hefði ég kannski fallið fyrir henni. Í dag kemst ég varla yfir hvað er kjánalegt að aðalpersónan heiti Byssukúla (Bissukúla? Byssukýla?).
Tónlistin er líklega sá hluti myndarinnar sem virkar best. Hún var vissulega síns tíma en án þess að vera gamalsdags.