Megalopolis (2024) 👎 {18-17-15-ø}

Ég bjóst ekki við að nýjasta mynd Francis Ford Coppola væri sérstaklega góð en ég vonaði að hún væri áhugaverð. Það átti reyndar við um fyrsta klukkutímann. Fáránleg en stundum skemmtilega skrýtin.

En það dregst og dregst. Söguþráður er varla til staðar. Persónusköpun ekki heldur. Mig langaði samt að sjá hvert þetta færi og þetta fór ekkert. Mig grunar að það sé boðskapur þarna en ekki nenni ég að greina myndina í leit að honum.

Myndin er Shakespearísk en ekki á góðan máta heldur vegna tilgerðarlegra takta.

Margt í hönnuninni minnti mig á óræða framtíðarheiminn úr Mystery Men (1999). Dustin Hoffman, Jon Voight, Shia LeBeouf og Aubrey Plaza voru bara skrefi frá því að vera persónur úr þeirri mynd. Mögulega hefði þetta virkað betur sem gamanmynd en þegar ég hló var ég aldrei viss um hvort það væri tilætlunin.

Adam Driver og Laurence Fishburne gera að vanda sitt besta en það bjargar engu. Aðrir leikarar fá lítið til að vinna úr eða gera ekkert úr því.

Ekki horfa á Megalopolis. Kíkið á Mystery Men í staðinn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *