Wallace and Gromit: Vengeance Most Fowl (2024) 👍 {29-27-25-ø}

Þórarinn frændi lánaði mér snemma á tíunda áratugnum myndbandsspólu með stuttmyndum sem ég held að hafi allar verið tilnefndar til Óskarsverðlauna sem besta „hreyfimyndin“. Animation er alltaf vandræðaorð til að þýða – myndir gæddar lífi. Yfirleitt segjum við bara teiknimyndir en það er auðvitað ónákvæmt.

Sú mynd sem ég hefði mest áhrif á mig var sú sem vann. Það var Creature Comforts (1989) frá Aardman. Það er fulllangt síðan ég hef séð hana en ég man að hún virkaði svo fersk (klisjuorð en satt). Ég fylgdist því vel með því sem kom í kjölfarið frá Aardman og var sérstaklega hrifinn af Wallace and Gromit.

Það sem ég hefði viljað vita fyrirfram um Wallace and Gromit: Vengeance Most Fowl (2024) er að hún er bókstafleg framhaldsmynd af The Wrong Trousers (1993). Ég horfði á hana með Ingimari og það hefði verið betra ef hann hefði séð fyrri myndina áður. Þið ættuð kannski líka að gera það og það er örugglega hægt að grafa upp upprunalegu Creature Comforts (1989) á netinu.

Það eina sem háir Wallace and Gromit: Vengeance Most Fowl (2024) er að hún er jafngóð og það sem við höfum vanist en gerir ekki neitt nýtt. Sem þýðir samt að hún er stórskemmtileg og ég mæli með henni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *