Fimm nemendur í hæskúl eru neyddir til að eyða laugardegi á bókasafni til að gjalda fyrir syndir sínar. Þau læra að þau eiga ýmislegt sameiginlegt þó þau sé öll bókstaflega steríótýpur.
Þegar ég keypti Breakfast Club á DVD hneykslaðist Ásgeir á mér og kallaði myndina Morgunverðarleiðindin. Við Eygló höfum kallað hana þessu nafni síðan og Gunnsteinn hefur líka tekið upp á þessu.
Í sömu færslu og Ásgeir nefndi að hann hefði notað 12 Monkeys í kennslu skrifaði hann að hann hefði gert það sama með þessa mynd:
En hápunktur vikunnar var náttúrulega að sjá loksins The Breakfast Club – skelfileg mynd á köflum en yndislega eitís samt einhvernveginn – og svo eru merkilega margir sannleikspunktar innan um allar klisjurnar.
– Ásgeir H Ingólfsson 4. febrúar 2004
Á toppnum yfir bestu myndir John Hughes eru Planes, Trains and Automobiles og Ferris Bueller’s Day Off. Ég hef ekki reynt að raða hinum á lista. Breakfast Club er ekki toppur eða botn.
Þetta er mynd sem hefur sinn stað í kvikmyndasögunni. Það eru ekki gæðin. Það eru vinsældirnar og hve oft hefur verið vísað í hana. Við erum vonandi að fara að horfa á Community og þá er Breakfast Club skylduáhorf (Anthony Michael Hall er gestaleikari í fyrsta jólaþætttinum). Það er ekki hjá því komist.
Af leikurunum er ekki hjá því komist að nefna að Judd Nelson (glæponinn) er veikasti bletturinn. Hann hefði þurft að skila stórleik til að láta þetta ganga almennilega upp. Ekki var handritið að hjálpa honum. Hann er líka bara alltof gamall.
Molly Ringwald (prinsessan) og Anthony Michael Hall (heilinn) eru á réttum aldri og komast eins vel frá henni og mögulegt er. Ég get ekki að því gert að mér finnst Ally Sheedy (furðufuglinn) vera dúlla og það er hægt að gleyma að hún var 22-23 ára. Synd og skömm samt hvernig karakterinn hennar endar í myndinni. Emilio Estevaz (íþróttakappinn) jafnaldri hennar er bara ekki í réttu hlutverki. Kannski hefði átt að ögra leikhæfileikum hans aðeins með því að fá hann til að leika hlutverk glæponsins. Nema að elsku bróðir hans Charlie Sheen hefði endurtekið hlutverkið úr Ferris, hann var nær réttum aldri á þessum tíma.
Það eru einhverjir sannleikspunktar í myndinni en í heild er hún grunn.
Við getum ekki horft á sömu myndina tvisvar af því að við breytumst alltaf í millitíðinni og vegna þess að myndin er núna í háskerpu á stóru sjónvarpi. Er hægt að heyra sömu lögin tvisvar eins eða breytast þau eftir líðan okkar?
Don’t you, forget about me
Don’t, don’t, don’t, don’t
Don’t you, forget about me
Maltin gefur ★★½
Alternately poignant, predictable, and self-important, but filled with moments of truth and perception.