Fyrsta bíóferðin mín er gleymd. Lengi vel var Footloose fyrsta myndin sem ég mundi eftir að hafa séð í bíó. Það var eldri minning en ég hafði ekki nafn á þá mynd. Fjölskylda á eyðieyju verður fyrir árás bjarndýrs. En ég var þrjóskur fann titillinn, The Sea Gypsies (1978). Sú var var víst sýnd reglulega í bíóhúsum landsins í mörg ár. Sýningareintak á flakki þegar vantaði fjölskyldumynd.
Það er samt ekkert á við Footloose. Ótrúlega svalt. Ég var fimm ára þegar ég fór á hana í bíó. Ég féll fyrir tónlistinni og Anna systir tók upp á kassettu nokkur lög af plötunni sem ég hlustaði á kvöldin þegar ég var að sofna. Seinna keypti ég geisladiskinn og elska öll þessi lög, sum meir’en önnur. Þetta er platan sem náði að koma Thriller af topp sölulistans í Bandaríkjunum:
- „Footloose“ (Kenny Loggins)
- „Let’s Hear It for the Boy“ (Deniece Williams)
- „Almost Paradise… Love Theme from Footloose“ (Mike Reno and Ann Wilson)
- „Holding Out for a Hero“ (Bonnie Tyler)
- „Dancing in the Sheets“ (Shalamar)
- „I’m Free (Heaven Helps the Man)“ (Kenny Loggins)
- „Somebody’s Eyes“ (Karla Bonoff)
- „The Girl Gets Around“ (Sammy Hagar)
- „Never“ (Moving Pictures)
Það áhugaverðasta við þennan lagalista er að handritshöfundurinn Dean Pitchford er meðhöfundur þeirra allra. Þannig að þó Footloose sé ekki söngleikur þá er svolítil söngleikjastemming í myndinni.
Gunnsteinn kunni annars textann að mörgum lögunum.
Ég gleymi alltaf að súmmera upp myndirnar sem ég skrifa um. Stórborgarstrákurinn Ren flytur í smábæ þar sem dans hefur verið gerður útlægur ásamt uppáhaldsbókinni hans (Slaughterhouse 5).
Herbert Ross gerði góðar og áhugverðar myndir fyrir og eftir Footloose. Þær eru afar ólíkar, hann gerði til að mynda My Blue Heaven og Steel Magnolias með stuttu millibili. Ross hóf feril kvikmyndaferil sinn sem danshöfundur þannig að hér var hann á heimavelli.
Kevin Bacon var búinn að leika í mörg ár (m.a. Animal House) en sló þarna í gegn, sjarmerandi gaur. Lori Singer er prestsdóttirinn sem á við … vandamál að stríða. Dianne Wiest er prestfrúin og stelur mörgum atriðum myndarinnar. John Lithgow er presturinn. Sarah Jessica Parker og Chris Penn eru í minni hlutverkum, ekki bókstaflega sínum fyrstu en mjög snemma á ferlinum. Mér þykir samt skemmtilegast að Frances Lee McCain er hér í hlutverki móður Ren af því að hún lék sama ár mömmuna í Gremlins (og fékk safaríkari bita til að stinga leiklistarhnífnum sínum í).
Presturinn er ekki vondur maður, hann er fyrst og fremst merktur af fjölskylduharmleik. Hann er svolítið villuráfandi og leyfir íhaldssamari öflum bæjarins að stjórna sér.
Ren er ekki hefðbundin karlhetja. Hann dansar (ljós, skuggar og fimleikaatriði) og hann kennir vini sínum að dansa. Í atriði þar sem venjulegar hetjur fara og berja á fyrrverandi kærastanum huggar hann. Hann slæst samt þegar vinur hans þarf á honum að halda.
Maltin gefur ★★½ en mín einkunn er bara að ég elska hana. Hún nær ekki að halda uppi dampinum frá upphafi til enda en dans- og tónlistaratriði gera hana þess virði. Þess vegna valdi ég hana sem svona afmælismynd og neyddi fjölskylduna til að horfa.
Við hvað tengir fólk helst? Það sem minnir á góða tíma? Kannski þvert á móti. Mögulega er það fólk mest virði sem kom þeim í gegnum erfiða tíma. Footloose var til sýningar í Borgarbíói í seinnihluta ágúst og fyrstu vikuna í september árið 1984. Rétt áður en mamma dó. Þannig er kannski ekki skrýtið að ég tengi við myndina og sérstaklega tónlistina.
Þetta er ein af þeim myndum sem ég á á UHD-disk (4k).