Handritshöfundurinn og leikstjórinn Drew Hancock kom nýlega í hlaðvarpið The Movies That Made Me og ræddi um bíómyndir sem komu út 1999, árið sem hann vann í kvikmyndahúsi. Eins og svo oft þá heyrist á Josh og Joe hvenær þeir eru sérstaklega hrifnir af mynd. Tónninn sagði að ég ætti að drífa mig á Companion.
Landið er nær alrautt á veðurkortum en við Gunnsteinn fórum samt niður í Mjódd. Ég hafði spottað smá lausn frá rigningu í kvöld.
Aðalhlutverkin eru í höndum Sophie Thatcher (sem lék líka í Heretic) og Jack Quaid (sonur Dennis og Meg Ryan).
Þrjú pör koma saman í einangruðu húsi í skógi. Sígild klisja. Eiginlega ekki. Þetta er að vissu leyti hryllingsmynd (blóð allavega) en samt meira svört gamanmynd, jafnvel ádeila.
Við Gunnsteinn vorum einir í salnum og þótti myndin frábær. Hún er fyrst og fremst ótrúlega fyndin. Við hlógum mikið og óheft. Bara, farið á þessa í bíó ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir blóði.