Það eina sem ég vissi um Emilia Pérez var að þetta væri söngleikur á spænsku sem hafði hlotið mörg verðlaun. Þannig að ég var ekkert búinn að heyra um deilurnar um hana fyrirfram. Það er ekki hægt að ræða myndina án þess að nefna grunnsöguna og þar verða höskuldar á ferð.
Lögfræðingur (Zoe Saldaña) er ráðin af mexíkönskum glæpaforingja (Karla Sofía Gascón) til þess að skipuleggja kynleiðréttingaraðgerð. Hún þarf líka að koma eiginkonu mafíósans (Selina Gomez) og börnum í skjól. Það gengur eftir. Nokkrum árum seinna hefur glæpaforinginn fyrrverandi aftur samband við lögfræðinginn til að hjálpa sér að endurnýja tengslin við „ekkju“ sína og börnin, nú sem frænka þeirra. Á sama tíma byrjar hún að vinna með lögfræðingnum að bæta að einhverju leyti fyrir skaðann sem hún olli sem glæpaforingi.
Aðalleikkonan er eina trans manneskjan í myndinni. Leikstjóri og handritshöfundur er Frakki sem virðist hafa litla þekkingu á umfjöllunarefni myndarinnar (enginn Mexíkani er í aðalhlutverki við gerð myndarinnar). Enda hefur myndin verið harðlega gagnrýnd fyrir yfirborðskennda og móðgandi umfjöllun.
Mér fannst kvikmyndin vera velmeinandi í garð bæði Mexíkó og trans fólks. Það skiptir bara ekki sérstaklega miklu máli þegar það mistekst svona hrikalega.
Allt í kringum kynleiðréttingaraðgerðina, meðal annars að það var bara ein aðgerð, var skelfilega asnalegt og byggði á margskonar ranghugmyndum. Sérstaklega klisjan eftir að Emilia vaknar. Æ. Mér þótti hins vegar ekkert ótrúverðugt við að skurðlæknirinn væri transfóbískur. Það passar alveg við það sem ég hef heyrt um reynslu trans fólks.
Síðan er athugasemd sonar Emiliu um hvernig hún minnir hann á pabba sinn. Það var bæði frekar móðgandi.
Loks má nefna að þegar glæponinn byrjar að birtast í Emiliu heyrist gamla röddin. Mig grunar að það hafi ekki átt að vera mikið meira en táknræn leikræn brella en þetta er viðkvæmt mál hjá trans fólki sem hefði átt að vera höfundinum ljóst.
Síðan er klisjan um trans konur sem morðingja ekki bara algengt í kvikmyndum heldur hefur hún náð tökum á almenningi og er nátengd fordómum og mismunun í garð þessa hóps.
Sama má segja um mexíkönsku glæpagengin. Enginn neitar að þau séu til en þarf fólk sem þekkir nær ekkert til Mexíkó að gera kvikmyndir um þessi glæpagengi. Myndin virðist síðan bjóða upp á hálfgerða lausn, eða endurlausn, sem er kjánalega einfeldningsleg.
Ég er alls ekki á þeirri skoðun að höfundar búi til verk um hópa sem þeir tilheyra ekki eða lönd sem þeir búa ekki í. Það er samt hægt að gera þá kröfu að þessir höfundar kynni sér málin vel og vandlega. Sérstaklega þegar um er að ræða jaðarhópa í samfélaginu.
Sem söngleikur er myndin lala. Það eru flott atriði og fín lög en það eru líka misheppnuð atriði og léleg lög.