Goodfellas (1990) 👍
{45-ø-ø-9}

„Þetta er ég, Henry Hill, á vettvangi morðs, þið eruð væntanlega að velta fyrir ykkur hvernig ég lenti í þessu klandri.“

Ég ýki en mér fannst þulurinn verða þreytandi. Ágætt í atriðinu í lokin en það er full lítið eftir allt sem á undan er komið.

Martin Scorsese er ekki í sérstöku uppáhaldi hjá mér sem leikstjóri. Hann hefur gefið mikið af sér til kvikmyndalistarinnar þannig að ég ber virðingu fyrir honum. Í fyrra horfði ég bæði á Taxi Driver og Raging Bull í fyrsta skipti á fullorðinsárum og hvorug heillaði mig.

Atli Sigurjónsson spurði mig einhvern tímann hvort ég væri undir áhrifum frá Ásgeiri en svo er ekki. Við Ásgeir ræddum eiginlega aldrei um kvikmyndir sem við vorum sammála um.

… þótt Scorsese hafi vissulega gert ágætar myndir þá hefur hann aldrei verið í sérstöku uppáhaldi á þessum bæ – sérstaklega út af því ofmetna rusli sem Taxi Driver og Goodfellas voru.

– Ásgeir H Ingólfsson 25. febrúar 2007

Því er þó ekki hægt að neita að kvikmyndauppeldi þarf smá Scorsese þannig að ég fór með Gunnstein í bíó að sjá Goodfellas. Svo er líka tenging við Community.

Ég hafði séð Goodfellas fyrir löngu og fannst hún ekkert spes en vildi gefa henni annan séns. Mér fannst hún betri í þetta skipti. Full hægfara undir lokin. Það jaðrar reglulega við ofleik, sérstaklega hjá Joe Pesci. Það eru samt mörg góð atriði. Langa skotið við og í Copacabana er ákaflega vel gert.

Kannski truflar það mig að þetta er byggt á sannri sögu þannig að ég á erfiðara með öll þessi morð en til dæmis í The Godfather sem er bara innblásin af sönnum atburðum.

Maltin gefur ★★★½ en það er frægt að hann stendur enn við þá einu og hálfu stjörnu sem hann gaf Taxi Driver.

Hugo (2011) er uppáhalds Martin Scorsese myndin mín og ein af fáum myndum sem mér þykir leiðinlegt að hafa misst af í þrívídd.

Hvað er annars málið með fólk sem mætir á gamlar myndir í bíó og hangir í símanum? Það er nógu slæmt dagsdaglega en ég hefði vonað að þetta fólk héldi sig bara heima við svona tilefni. Kvikmyndahúsin gera ekkert til að stoppa þetta þó margir nefni þetta sem eina helstu ástæðuna fyrir því að það nennir ekki lengur í bíó.