Dracula (1931)
{51-ø-38-ø}

Ein af þeim myndum sem mér gafst lengst af ekki tækifæri til að sjá. Það er eiginlega synd að ég hafi séð Bela Lugosi í myndum Ed Wood áður en ég loksins sé hann sem Drakúla.

Þessi útgáfa er eiginlega lengra frá upphaflegu bókinni heldur en gamla Nosferatu. Hún er aðallega mjög stytt útgáfa. Ég hafði ekki áttað mig á að myndin gerist á þriðja áratugnum, um aldarfjórðungi eftir að bókin kom út. Hún er sumsé samtímamynd.

Myndin er á köflum stíf og leikritaleg (enda byggð á leikriti). Brellurnar með að lýsa upp augu Lugosi virkuðu ekki á mig. Augun hans eru nægilega dramatísk fyrir. Það eru hins vegar leðurblökurnar sem eldast verst af öllum brellunum.

Það er ljóst að Bela Lugosi hefur mótað það hvernig Drakúla hefur birst eftir að myndin kom út. Hans vampíra er tiltölulega myndalegur maður frá upphafi til enda. Búningurinn endurómar í gegnum flestar vampírumyndir sem ég ólst upp við.

Dracula er viljandi fyndin mynd, á köflum. Sér í lagi eru það Renfield og sjúkraliðinn sem þarf að passa upp á hann sem sjá um grínið. Samt eru einstaka atriði eða skot sem sýna Renfield svolítið óhugnanlegan.

Það væri áhugavert að sjá hvernig spænska Drakúla, sem var tekin upp samhliða þessari, kemur út í samanburðinum. Sumir segja að hún sé betri en ég veit ekki hvort ég nenni henni.

Ég var hrifnari af þessari heldur en Frankenstein sem kom út sama ár. Sú mynd greip mig aldrei (ég hef reyndar heyrt að Bride of Frankenstein sé betri). Annars er ég illa að mér í gömlu Universal skrýmslunum.

Dracula (1931) er meiriháttar mynd í kvikmyndasögunni en ekki búast við of miklu.

Maltin gefur ★★★½.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *