Unglingstúlka er þreytt á bróður sínum en iðrast þess samt að hafa beðið David Bowie um að hirða hann og leggur í hetjuför til að endurheimta krakkann.
Kannski er þetta ekki ein af uppáhaldsmyndum Eyglóar en hafði mikil áhrif á hana á sínum tíma. Ingimar hefur verið spenntur að sjá honum síðan við sáum heimildarmyndina um Jim Henson. Gunnsteini fannst myndin greinilega mjög fyndin.
Sjálfur hef ég alltaf verið frekar efins um myndina. Hún er mjög flott. Oft fyndin. Brúðurnar eru stórskemmtilegar og margar brellurnar líka. Það eru líklega helst tölvubrellurnar sem hafa elst illa. Kannski að George Lucas (framleiðandi myndarinnar) geti tekið að sér að laga þær? Hann hefur ekkert betra að gera þessa daganna.
Jennifer Connelly var ekki orðin fimmtán ára þegar tökur hófust og hún virkar ekkert sérstaklega vel í þessu hlutverki. Mig grunar að erfiðar aðstæður við tökur og ruglingsleg umgjörð hafi ekki hjálpað. Hún er líklega á skjánum í 90-95% tímans þannig að það mæðir full mikið á henni.
Samt er ég ekkert mikið hrifnari af David Bowie í sínu hlutverki. Merkilegt nokk þá eru það tónlistaratriðin sem virka ekki fyrir mig. Lögin eru bara ekki sérstaklega góð eða eftirminnileg. Kannski er til fólk sem syngur alltaf með en ég tengi ekkert við þau.
Hefði þessi mynd verið betri ef manneskjurnar hefðu líka verið brúður?
Handritið er þunnt. Samið af Terry Jones (Monty Python) og, skv. Wikipediu, ýmsum öðrum (þ.á.m. George Lucas).
Það er fleira fólk sem þið þekkið í myndinni en þið gætuð haldið. Margir úr Prúðuleikurunum, s.s. Frank Oz, Dave Goelz og Steve Whitmire. Kenny Baker og Warwick Davis (jafnaldri Jennifer) nýta smæð sína til að klæðast búningum. Síðan vann Gates McFadden á bak við tjöldin við danshönnun. Mig rámar í að hún hafi átt að leika stjúpuna en ekki fengið vinnuleyfi í Bretlandi sem leikari. Brian Henson var líka að vinna með brúðurnar (rétt áður eða eftir að hann var með Audrey II fyrir Frank Oz í Little Shop of Horrors).
Þetta er ekki slæm mynd en ég er alltaf mikið hrifnari af öllum Prúðuleikaramyndunum.
Maltin gefur ★★★ sem mér finnst örlátt.