Í lok myndarinnar er orðið „fuzz“ notað og þegar ég útskýrði fyrir Gunnsteini að þetta væri slangur fyrir löggu ferðaðist ég aftur í tímann í Menntaskólann á Akureyri þar sem Örn Þór sagði okkur í fyrsta bekk nákvæmlega þetta.
Hvernig þýðir maður cornetto? Ís í vöfflu en ekki beint úr vélinni heldur frystinum. Allavega er þetta önnur myndin í Cornetto-þríleiknum hans Edgar Wright. Sú fyrsta var Shaun of Dead og hér snúa Simon Pegg og Nick Frost aftur í nýjum hlutverkum.
Lögga sem gerir allt eftir bókinni er svo óvinsæll meðal yfir- og samstarfsmanna að hann er sendur í kyrrlát þorp út á landi. En ekki er allt sem sýnist.
Stundum finnst mér gaman að endurskapa andlausar lýsingar á kvikmyndum sem birtust með dagskrá sjónvarps í dagblöðum hér áður fyrr.
Myndin sameinar og gerir grín að lögguvinamyndum sem voru vinsælar á níunda og tíunda áratugnum og hugljúfum enskum þorpsmorðgátuþáttum sem við þekkjum flest.
Þetta var myndin þar sem ég féll fyrir Edgar Wright. Ég held að hún sé ekki jafn góð og Shaun og alls ekki jafn góð og Baby Driver eða Scott Pilgrim. En hún er fyndin í gegn. Þó er ég að þessu sinni sammála Maltin um að það hefði mátt skera svolítið niður, sérstaklega í lokauppgjörinu.
Gunnsteinn sýndi engin viðbrögð við því að nágrannavarslan var ítrekað kölluð N.W.A. þannig að ég hef greinilega brugðist í rapptónlistaruppeldi.
Myndin er uppfull af leikurum. Marga sem við þekkjum mörg. Olivia Colman, Timothy Dalton, Jim Broadbent, Bill Nighy, Bill Bailey, Steve Coogan, Martin Freeman og Paul Freeman (ekki skyldir). Mér sýndist Cate Blanchett vera þarna og það var rétt hjá mér en hún er illþekkjanlegt. Peter Jackson fór alveg framhjá mér í hlutverki jólasveins. Svo var skemmtilegt að sjá illþekkjanlegan Íslandsvininn Rory McCann.
Maltin gefur ★★ sem er innan skekkjumarka hvað hann varðar.