Forritari (Domhnall Gleeson) fær óvænt boð frá yfirmanni sínum Oscar Isaac að koma í einangraða villu sína. Það kemur í ljós að hann á að skoða og gefa álit sitt á gervigreindarvélmenni (Alicia Vikander).
Rétt að taka fram að þetta er ekki gervigreind í þeim skilningi sem hugtakið hefur verið notað í markaðsetningarskyni undanfarin ár. Hér er gervigreind grundvölluð af meðvitund og þekkingu á eigin eðli. Myndin notar líkinguna við skáktölvu. Þú getur teflt við hana en hún skilur ekki að hún sé að tefla. Á sama hátt og ChatGPT skilur í raun ekki hvað það þýðir þegar það biðst afsökunar á mistökum sínum. Eftirlíking af meðvitund og skilningi.
Þema myndarinnar verður ljóst þegar lagið Enola Gay með Orchestral Manoeuvres in the Dark hljómar í bakgrunninum.
Hún fellur sumsé frekar í flokk vísindaskáldskaps sem telur gervigreindina mögulega hættulega. Það er ótrúlega útbreidd trú innan gervigreindarbransans. Auðvitað er raunverulega hættan af ChatGPT’um okkar tíma á að fólk sem ekki skilur hvernig þessar giskvélar virka noti þær til að stjórna mikilvægum innviðum.
Það sem stendur upp úr að Alicia Vikander er ótrúlega sannfærandi þá hún sé lengst af bara andlit á vélmennabúki. Þvílík frammistaða undir þessum takmörkunum.
Stór plús fyrir skot á njósnir tæknifyrirtækja á almenning á tíma þar sem margir voru enn í afneitun.