Árið er 1987 og Patrick Bateman tilheyrir meisturum alheimsins á Wallstreet. Hann hugsar vel um sjálfan sig. Útlitslega séð. Undir niðri er annað að finna.
Þetta er mynd frá síðustu öld þannig að ég leyfi mér að höskulda aðeins. Varúð.
Rétt áður en við lögðum af stað í bíóið mundi ég eftir ræðunni um Huey Lewis and The News og reyndi að leggja aðalatriðin á minnið. Á leiðinni í bíóið spilaði ég tónlistina úr myndinni og fór með umorðaða útgáfu af öllu því fallega sem Patrick Bateman hafði að segja um Hip To Be Square. Ég geri fastlega ráð fyrir að Gunnsteinn hafi verið að leita að merkingunni sem ég talaði um í þessum mjög innihaldsríka texta.
Ég hafði sumsé séð myndina á sínum tíma og fannst hún fín en ekki snilld. Það kom mér því skemmtilega á óvart hve góð hún var og ég hafði orð á því í hléinu.
Eftir hlé missti myndin flugið. Ég held að tónninn virki ekki. Hún er ekki alveg splatter mynd og hún er ekki heldur grínmynd. Hún nær ekki jafnvægi eða veit ekki alveg hvað hún ætlar að vera.
Christian Bale er augljóslega mjög góður í hlutverki Walter Mitty Wall Street sem dreymir um að vera Ed Gein. Það dugar ekki alveg.
Það eru margir fínir leikarar í myndinni en enginn annar fær tækifæri til að gera nokkuð eftirminnilegt. Kannski helst Jared Leto og Justin Theroux. Reese Witherspoon¹ nær inn nokkrum góðum línum en er annars sóað.
Martin gefur ★½ en er að flestu leyti sammála mér.
¹ Í kvöld sneri aftur þessi leiðinda meinloka mín þar sem ég rugla saman nöfnunum á Renée Zellweger og Reese Witherspoon. Er það af því þær urðu frægar á svipuðum tíma?