Í fórum mínum er jólakort til ömmu minnar (Ingibjörg Óladóttir 1912-2002) sem er stílað á Imbu á Herhóli. Þar sem fæðingarstaður ömmu heitir Smjörhóll þótti mér þetta nokkuð nokkuð áhugavert.
Frá ömmu (og seinna Sigurði Birgi frænda mínum á Smjörhóli) fékk ég þær skýringar að prestur nokkur hafi verið á því að Herhóll væri réttara nafn. Á sínum tíma grúskaði ég töluvert í þessu og var orðinn nokkuð viss um að umræddur prestur hefði verið Þorleifur Jónsson á Skinnastað. Hann lést árið 1911 og í kjölfarið virðist bæjarheitið Herhóll hafa fjarað út.
Þessi sama skýring er gefin hjá Örnefnastofnun:
Nú á síðari tímum (líklega frá sr. Þorleifi á Skinnastað) fór að koma fram nafnið Herhóll, en enga stoð mun það nafn eiga í heimildum.#
Fyrir nokkrum árum dúkkaði upp breyting á upplýsingum um ömmu í Íslendingabók. Hún er sögð fædd „á Herhóli í Öxarfirði“ og að hún hafi verið „á Herhóli“ 1920. En síðan stendur að hún hafi alist „upp með foreldrum á Smjörhóli“ og hafi verið „[v]innukona á Smjörhóli“ [1930]. Það vottar hvergi fyrir að Herhóll og Smjörhóll sé sami bærinn.
Spurningin er: Er rétt að nota bæjarheiti sem var notað í opinberum skjölum vegna sérvisku eins prests? Ég veit ekki til þess að amma hafi nokkrum sinni sagt að hún væri fædd á Herhóli. Ég held að henni hafi ekki komið það til hugar þó henni hafi fundist þetta flott nafn þegar hún var krakki.
Þessi umræða leiðir beint að öðrum samræðum sem ég átti við ömmu. Var amma frá Axarfirði eða Öxarfirði? Hún sagði mér að einhverjir hafi fundið út að Öxarfjörður væri réttara heiti en var sjálf ekki alveg sannfærð.
Þegar ég fór að skoða málið varð ég nokkuð viss um að Öxarfjörður væri dæmi um fyrningu á málinu. Það að „leiðrétta“ eðlilega þróun íslenskunnar með því að nota eldri orð og heiti.
Ég rakst svo á pistil í Alþýðublaðinu eftir Guðna Kolbeinsson.
Ekki hafa þó allir sætt sig við nafnið Axarfjörður, því að Þorleifur Jónsson, sem varð prestur á Skinnastað 1881 og var merkur fræðimaður, mun hafa gengist fyrir því að gerð var sveitarsamþykkt um að halda uppi nafninu Öxarfjörður, og það heitir hreppurinn nú á máli yfirvalda.#
Það var sumsé sami prestur. Hann vildi Herhól í Öxarfirði en ekki Smjörhól í Axarfirði. Honum gekk frekar vel að dreifa sérvisku sinni.
Kveikjan af þessum skrifum er vefurinn Sögulegt mann- og bæjatal sem var víst að fara í loftið. Þar mætti nefna tengja Herhól og Smjörhól.