The Godfather (1972) 👍👍🖖
{82-ø-ø-25}

Líklega hef ekki heyrt eða lesið meira um nokkra mynd heldur en The Godfather. Baksagan er nefnilega áhugaverð. Mafíósar, olíubarónar og listamenn. Ef ég myndi leyfa mér það gæti ég skrifað nærri því jafn mörg um þá sögu og kvikmyndina sjálfa. Ég skal reyna að hemja mig. Francis Ford Coppola hefur sagt að þetta hafi verið erfiðara en að gera Apocalypse Now. Læt söguna af þeirri mynd líka bíða. En ég mæli alveg með sjónvarpsþáttunum The Offer (2022) sem fjallar um þetta og er ótrúlega nærri sannleikanum.

Myndin er gerð eftir samnefndri metsölubók Mario Puzo frá árinu 1969. Leikstjóri er fyrrnefndur Coppola. Aðalhlutverk er Marlon Brando, Al Pacino, James Caan, Diane Keaton, John Cazale, Talia Shire (systir Coppola og mamma Jason Schwartzman) og Robert Duvall.

Kvikmyndagerð Coppola virðist alltaf hafa verið fjölskyldumál. Pabbi hans Carmine kom að tónlistinni og sést í einu atriði. Sonur hans Roman Coppola (sjá Dracula færsluna) leikur strák á götunni. Áhugaverðast er kannski að nýfædd dóttir hans Sofia kemur fram í skírnaratriðinu og enginn hefur kvartað yfir frammistöðu hennar. Bróðursonurinn Nicolas Coppola fékk ekki hlutverk en þið kannist við hann sem Nicolas Cage.

Richard S. Castellano festist í minninu sem Clemenza. Því miður er Abe Vigoda sem lék Tessio látinn fyrir nokkrum árum (brandari sem þið munið kannski ekkert eftir).

Af öðrum eftirminnilegum má nefna Lenny Montana sem hafði unnið unnið fyrir mafíuna í hlutverk Luca Brasi. Hann var svo taugaóstyrkur að Coppola innlimaði það í persónuna. Annar uppgjafaglæpamaður var Alex Rocco í hlutverki Moe Greene (Bugsy Siegel) en þið þekkið kannski röddina hans frekar úr The Simpsons þar sem hann lék Roger Meyers Jr. (Itchy and Scratchy framleiðandinn).

Það þarf að nefna kvikmyndatökustjórann Gordon Willis sem ber mikla ábyrgð á útliti myndarinnar. Hann var einmitt kallaður myrkrahöfðinginn vegna þess hve takmarkaða lýsingu hann notaði (og mig minnir að hann hafi svarað með því að kalla eldri kollega sína eldvörpur).

Þá er ónefndur Nino Rota sem samdi tónlistina í myndinni (sumt aðlagað frá fyrri verkum sínum). Ég man það alltaf því einhvern tímann sagði ég að það hefði verið Ennio Morricone og Ásgeir leiðrétti mig.

Söguþráðurinn, og hér verða höskuldar, er í stuttu máli: Þó mafíuforingi hafi gert sitt besta til þess að halda yngsta syni sínum frá glæpum neyðist sá til að blanda sér í fjölskyldureksturinn eftir að faðirinn hefur verið skotinn. Einfalt? Ekki beint.

Ég sá Godfather þríleikinn fyrst í október 1995. Þemamánaður á Stöð 2 Líklega sá ég fyrstu myndina 13. október. Þó var þetta á tíma í lífi mínum þar sem ég var allt í einu virkur í félagslífi þannig að það er smá séns að ég hafi tekið myndina upp og horft á daginn eftir. Þetta var auðvitað á túbusjónvarpi og mig grunar að ég hafi ekki áður séð myndina á breiðskjá og auðvitað aldrei á breiðtjaldi.

Það munar töluverðu að sjá hana á stóra tjaldinu. Reyndar klúðruðu Sambíóin þessu og um mínúta í upphafi myndarinnar var bara svört. Pirrpirr. Ekki einu sinni Gordon Willis hefði ekki sætt við slík birtuskilyrði.

Ég man aldrei eftir að tekið eftir því að Frelsisstyttan er í bakgrunninum í cannoli atriðinu. Hún snýr bakinu í það sem gerist.

Þessi mynd, þessar myndir, fjalla auðvitað um það sem við köllum núna eitraða karlmennsku og hvernig ofbeldi kallar á ofbeldi. Við sjáum hvernig ævistarfi og markmiðum Vito Corleone er rústað. Sonurinn sem átti að vera heiðarlegur er orðinn guðfaðir. Sá elsti er dauður. Framhald síðar. Coppola og Puzo vissu alveg hvað þeir væru að gera.

Atriðið í skírninni er auðvitað meistaraverk. Hræsni Michael sem afneitar djöflinum og öllum hans verkum á meðan morðingjar vinna skítverkin hans.

Maltin gefur ★★★★ og það ætti að vera óumdeilt. Ég hlustaði líka á þátt af hlaðvarpinu hans The Movie Guide with Maltin & Davis þar sem er létt umfjöllun um The Godfather. Í þættinum segir hann frá því þegar hann sé myndina fyrst í bíó og á ákveðnum tímapunkti segir stelpa bak við hann við vinkona sína: Þetta er atriðið með hestshausnum í rúminu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *