Árið er 1979. Vinnufélagar í Texas, ásamt kærustum sínum, halda út í sveit ásamt ungum kvikmyndagerðarmanni og kærustu hans til þess að búa til tilraunakennda mynd. Markmiðið er að græða peninga myndbandsspólusölu (sem er reyndar frekar góð langtímaspá á þessum tíma). Listræna mynd sumsé. Klám. Þau fá gistingu á vegum frekar undarlegs gamals fólks.
Þarna er Mia Goth í aðalhlutverki. Ég veit hver hún er en ekki mikið meira. Merkilegt nokk hef ég ekki séð Nymphomaniac myndir Lars von Trier. Ég sá Idioterne og lét það bara duga. Jenny Ortega þekki ég bara út af Beetlejuice Beetlejuice. Ég var hrifinn þeirri mynd. Og þær standa sig báðar vel hérna.
Í raun er ég ekki sérstaklega vel að mér í hryllingsmyndum. Þó hef ég yfirleitt séð fyrstu myndirnar í þessum seríum. Það sem ég sá voru vísanir í Texas Chainsaw Massacre, Psycho, The Shining og Friday the 13th (Vrijdag de 13e á spólunni sem ég fékk lánaða frá Þórarni). Síðan giskaði ég á vísun í aðra mynd sem ég hef aldrei séð en væri eiginlega höskuldur að nefna.
Myndin hefur frekar augljós þemu. Æsku, að eldast, öfund, ást og kynlíf.
Mér sýnist eins og þessi mynd hafi gengið í gegnum tímabil bæði oflofs og bakslags. Ég hafði engar óhóflegar væntingar og fannst hún bara mjög fín. Ekki horfa á hana ef þið hafið andúð á hryllingsmyndum.
Ég er ekki alveg viss um að ég horfi á framhaldsmyndirnar tvær. Það vekur samt áhuga minn að forhaldið var gefið út strax sama ár. Frekar óvenjulegt.