Til þess að drepa skæruliðaforingja framtíðarinnar er tortímandi sendur til ársins 1995. En skæruliðaforinginn sendir líka verndara til að vernda sjálfan sig.
Ég rifja reglulega upp hreim æskunnar þegar ég segi Ter-mín-a-tor. Svona Djúran Djúran dæmi.
Hér verða höskuldar.
Ég missti alveg af þessari í bíó. Ég var tólf ára þá. Mér finnst eins og ég hafi jafnvel verið búinn að sjá Wayne’s World fyrst (12. nóvember 1992 í Borgarbíó). Mig minnir að ég hafi fyrst séð þessa í Furulundinum hjá Gunnlaugi Starra frænda. Síðan fékk tónlist Brad Fiedel að hljóma nokkuð reglulega hjá honum.
Auðvitað er þetta hluti af kvikmyndauppeldinu. Við horfðum á fyrri myndina í fyrra. Ég uppgötvaði að hún var töluvert betri en mig minnti. Upplausnin hjálpar töluvert.
Mér finnst þessi eldast mun betur en True Lies sem við sáum um daginn, þó þessi sé nokkrum árum yngri. T2 (eins og hún var gjarnan kölluð) er eiginlega gegnheil. Hún er með allra bestu hasarmyndum þessa, og líklega allra, tíma.
Schwarzenegger er fyndinn þó hann sé á stöku stað að nálgast það að vera skopmynd af sjálfum sér. Lukkulega gerðist það ekki fyrr en árið 1997 (rétt rúmum tveimur mánuðum fyrir heimsendi).
Það er svolítið erfitt að gúddera Edward Furlong sem tíu ára krakka. Hann var ekki mikið eldri, líklega tólf að verða þrettán. Hann bara hagar sér ekki eins og hann sé tíu ára. Ég er hins vegar alveg tilbúinn að líta framhjá því. Hann hefur væntanlega „þroskast“ hratt meðfram því að alast upp meðal skæruliða.
Linda Hamilton er hins vegar mjög sannfærandi sem kona sem hefur eytt rúmlega tíu árum í að undirbúa sig fyrir heimsendi.
Það er skemmtileg tenging milli T2 og Gremlins 2: The New Batch. Dan og Don Stanton léku vísindamenn á rannsóknarstofu Christopher Lee í þeirri mynd en hér leika þeir öryggisvörð og tortímanda sem endurskapar útlit öryggisvarðarins. Þeir hafa komið víðar við áður en kvikmyndaiðnaðurinn fór á þær kjánalegu slóðir að láta sama leikarann leika tvíbura.
Stóri skjárinn hjálpaði mér að sjá ný smáatriði. Ég hló upphátt þegar ég las á skilti „Cactus Jack’s“ því það (Cactus Jack) er gömul Schwarzenegger (ásamt Kirk Douglas og Ann-Margret) mynd í leikstjórn Hal Needham. Við Starri tókum hana einhvern tímann á spólu og þótti stórfyndin. Hef ekki séð hana lengi.
Ég er ekki alveg viss hvernig tímaferðalagarökfræðin gengur upp í þessari mynd. Ég veit ekki hvort hún gengur upp. Aftur á móti skil ég 12 Monkeys, Back to the Future og Predestination. Lukkulega lauk Terminator-heiminum með þessari mynd. Ímyndið ykkur ef það hefði verið haldið áfram eftir þessi fullkomnu endalok. Talandi um að hafa þumalinn upp.
Maltin gefur ★★½. Ekki beint óvænt.