Pearl (2022) 👍
{88-67-ø-ø}

Ung kona tekst á við stjörnudrauma, vonbrigði, fjölskyldu sem heldur aftur af henni og þær ögranir sem fylgja því að eiginmaður hennar fór að berjast í fyrri heimstyrjöldinni (sem var kölluð annað árið 1918). Af einhverjum ástæðum var ég það forvitinn um þessa mynd að ég ákvað að horfa á hana rétt eftir þá fyrri.

Árið er 2021 og faraldurinn í fullum gangi. Það er verið að taka upp kvikmynd á Nýja Sjálandi og leikstjórinn Ti West áttaði sig á því að það væri voðalega hentugt að taka upp aðra mynd sem gerðist á sama stað með sama upptökuliðinu. Þannig að hann og leikkonan Mia Goth skrifaðu þetta handrit á meðan sú fyrri var tekin upp.

Þetta er sumsé forhald (eða afturhald) af X (2022). Þar sem þetta gerist rúmum sextíu árum á undan fyrri myndinni er Mia Goth augljóslega ekki að leika Maxine, aðalpersónuna úr X heldur Pearl. Árið er 1918 og spænska flensan í fullum gangi. Sem þýðir að aukaleikarar geta einfaldlega rölt um með nauðsynlegan hlífðarbúnað falin á bak við grímur sem tilheyra samtíma sögunnar. Það er ákveðin snilld.

Mia Goth er ekki bara í aðalhlutverki í myndinni, nær öll myndin hvílir á henni og það gengur upp. Mig langar helst að líkja henni við Nicolas Cage.

Ekki það að aðrir leikarar séu ekki góðir. Sérstaklega Tandi Wright í hlutverki mömmu Pearl.

Kvikmyndatakan er skemmtileg. Litirnir minna á Technicolor. Þetta gæti verið Wizard of Oz eða Disney-mynd. En er það ekki. Bara alls ekki.

Þessi mynd er ekki allra. Hún er fyrir suma og sumir verða hrifnir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *