Vlny / Öldur (2024) 👍👍
{93-70-50-29}

Starfsfólk Tékkóslóvakíska útvarpsins ögrar ritskoðunartilburðum ríkisstjórnarinnar í aðdraganda Vorsins í Prag (1968).

Myndin var sýnd til minningar um Ásgeir vin minn. Þegar hann fékk fréttirnar um að hann væri með krabbamein bauð hann systur sinni og mömmu á þessa mynd sem hann hafði þá þegar séð. Þessi mynd var líka á lista hans yfir bestu myndir ársins (ásamt t.d. Elskling og Heilögu fíkjunni, gleymdi að nefna það).

Enski titillinn Waves virðist vera notaður almennt um þessa kvikmynd. Ég þýði þetta sem Öldur í merkingunni „öldur ljósvakans“. Bylgjur gæti líka gengið upp.

Þó ég þekki sögu Vorsins í Prag að einhverju leyti þekki ég þessa afmörkuðu sögu ekki neitt. Myndin gerir auðvitað ráð fyrir að áhorfendur viti hvernig fer. Bjartsýnin og frelsið lifa ekki af sumarið.

Það eina sem ég var efins með í myndinni er ástarsagan. Hún virkar smá eins og einhverjum hafi þótt vanta eitthvað slíkt. Nema að hún hafi verið sönn. Ekki veit ég neitt um það.

Það vottar aðeins fyrir höskuldi í næstu málsgrein.

Sögulega áhugaverðasti hluti myndarinnar er auðvitað það sem gerðist á meðan innrás Sovétríkjanna (og ríkja Varsjárbandalagsins) stóð. Ég myndi alveg vilja sjá heimildarmynd um hvernig starfsfólk útvarpsins reyndi að halda útsendingunni gangandi.

Það mætti vel setja Öldur í almennar sýningar í Bíó Paradís þannig að fleiri geti fengið að sjá.

Þessi mynd markar annars tímamóti í áramótamarkmiði sem ég setti mér. Það var að horfa á allavega fimmtíu myndir frá síðustu árum (viðmiðið 2023-2025) á þessu ári. Ég verð að viðurkenna að ég vandaði mig aðeins að láta þetta passa.