Árið er 1922. Gypo hefur verið rekinn úr írska lýðveldishernum (þeim upphaflega) í miðju frelsisstríði Íra. Hann vill gera vel við stúlkuna sína en á enga peninga. Þá sér hann veggspjald þar sem lofað er verðlaunum fyrir upplýsingar um dvalarstað félaga hans.
Einhvers staðar heyrði ég að The Informer væri ein fyrsta verulega góða mynd John Ford. Þar sem ég er ákaflega hrifinn af The Man Who Shot Liberty Valance (1962) og Stagecoach (1939) ákvað ég að kíkja á mynd eftir hann sem væri ekki vestri. Mér þótti líka áhugavert að myndin er gerð eftir bók írsks frænda Ford.
Þetta er ekki sígild mynd þrátt fyrir lofsyrði Maltin og Halliwell. handritið er stirt og endurtekningarsamt. Írskir hreimar leikara eru almennt vandræðalegir. Varðandi hvernig Írar eru sýndir í myndinni er kannski einfaldast að nefna að það er nokkrum sinnum minnst á gullpotta. Þá er lítið að finna um samhengið sem myndin gerist í.
Þrátt fyrir þetta er aðalleikarinn Victor McLaglen nokkuð góður og minnti mig svolítið á drykkjumenn sem ég hef hitt um ævina. Mér var bara alveg sama hvort hann myndi lifa eða deyja.
Tónlist Max Steiner hefur elst nokkuð vel. Hún má heita sígild kvikmyndatónlist.
Maltin gefur ★★★½ sem er óhóflegt. Hann segir að hún standi enn fyrir sínu og þá síðasta útgáfa kvikmyndahandbókarinnar hafi komið út 2015 þá grunar mig að sú lína hafi verið skrifuð á áttunda eða níundaáratugnum.