Móðir, sonur og hinn sonurinn flytja í smábæ. Þau kynnast sætri nágrannastelpu sem á sundlaug. Hvað gæti skyggt á líf þeirra? Hvað er óttast? Kannski dularfulla holan í kjallaranum.
The Hole er mynd með óljóst ártal. Hún fór á kvikmyndahátíðir 2009 en fór ekki í bíó fyrren árið 2012 og þá mjög takmarkaða dreifingu. Hún fór alveg framhjá mér.
Ég hef lítið þol fyrir þrívíddarmyndum. Yfirleitt er slíkt algjör óþarfi og oftast pirrandi. Margar voru ekki einu sinni gerðar í „raunverulegri“ þrívídd Þetta er eina myndin sem ég syrgi að hafa ekki séð í þrívídd.
Ég fann fyrir því að horfa á myndina að hún var hönnuð fyrir þrívídd. Það gerir hana kraftminni í tvívídd.
Joe Dante leikstýrði myndinni og eftir að hafa horft á Burying The Ex var ég næstum búinn að fresta þessari. Þær litu út fyrir að vera svipaðar. Það væri jafnvel hægt að ímynda sér að sú fyrrverandi hefði verið grafin í þessari holu. Lukkulega eru þær gjörólíkar.
The Hole er líka ólíkt flestum myndum Dante að því leyti að hún er meiri hryllings- en gamanmynd. Hún gengur samt ekki út á ógeð heldur meira ógn sem vofir yfir eins og vofa. En hún er ekki ófyndin. Hún er næstum eins og afturhvarf til gullaldar Amblin (ekki jafn góð og þær bestu en við munum aðallega eftir þeim).
Það sem háði myndinni eiginlega mest var tvennt.
Það hefði líklega verið hægt að vinna tæknibrellurnar betur. Þær eru ekki vandræðalegar en virka stundum ódýrar. Aftur á móti er sviðsmyndin í lokauppgjörinu frábær þó ég sjái á umsögnum að það hafi ekki allir verið á sama máli og ég.
Það er ekkert frumlegt við myndina en ég er ekki viss um að það hafi verið markmið Dante að brjóta múra með söguþræðinum.
Bruce Dern og Dick Miller líta við þó sá síðarefndi hafi ekki fengið nógu mikið að gera. Haley Bennett er sæta stelpan og strákarnir eru einhverjir gaurar.
Fín Dante mynd. Ekki ein af þeim bestu en kannski á svipuðu róli og hin mjög svo vanmetna Looney Tunes’s Back In Action.
Maltin gefur ★★★ sem er sanngjarnt.