Ung stúlka á kreppuárunum missir móður sína en þekkir ekki pabba sinn. Mögulega er það biblíusölumaðurinn.
Paper Moon hefur verið lengi á listanum en ég frestaði henni kannski af því ég var hræddur um að hún yrði óhóflega væmin. Hún er það ekki. Bara mjög hóflega.
Auðvitað er Tatum O’Neal stjarna myndarinnar og eiginlega skrýtið að hún hafi ekki verið tilnefnd sem besta leikkona í aðalhluverki. En hún vann auðvitað sem besta leikkona í aukahlutverki, aðeins tíu ára gömul. Anna Paquin var ellefu ára þegar hún vann tuttugu árum seinna.
Já, Tatum er fyndin og sjarmerandi. Samband hennar við Biblíusölumanninn (Ryan O’Neal) virkar kannski svona vel af því að þau eru feðgin. Ætli komi einhvers staðar fram hvort Peter Bogdanovich hafi valið þau til þess að staðfesta að hann sé pabbinn? Eða er það bara til þess að það sé sannfærandi möguleiki?
Madeline Kahn er ekki alveg jafn skemmtileg og hún getur verið og það er næstum að ég hafi verið leiður að hún tæki athygli frá Tatum. John Hillerman (Magnum, p.i.) er áberandi á tímabil og Randy Quaid fær eftirminnilegt hlutverk.
Fróðleiksmolinn dagsins er að Jodie Foster lék hlutverk Tatum i skammlífum sjónvarpsþáttum.
Maltin gefur ★★★★ og ég held að það sé almenn sátt um það.