Auðkýfingur býður í morðgátuteiti þar sem gestirnir eiga að leysa hans eigið morð. Er það í alvörunni góð hugmynd? Gæti þetta endað með raunverulegri ráðgátu?
Sjálfstætt framhald af hinni mjög svo skemmtilegu morðgátumynd Knives Out. Leikstjóri og handritshöfundur er Rian Johnson sem var hataður af ömurlegustu týpunni af nördum fyrir sína Star Wars mynd þó, eða vegna þess, að hann reyndi að kveða niður erfðasynd seríunnar. Auðvitað eru pólitískir tónar (ekki einu sinni undirtónar) í þessari mynd.
Reglulega hugsa ég með sjálfum mér að John Mayer er, og ég skal orða það án gildisdóma, asnalega skrýtinn. Það var Janelle Monáe sem minnti mig á það. Hán er líka hjarta myndarinnar.
Daniel Craig snýr aftur sem Benoit Blanc, besti einkaspæjari í heimi. Hreimurinn hans fór áfram í taugarnar á fólki sem telur sig vita hvernig hann ætti að vera. Mér finnst hann bara skemmtilegur.
Jessica Henwick er leikkona sem ætti að fá stærri hlutverk. Hún var það eina góða við Járnhnefaþættina á Netflix. Ég þekkti hana ekki strax enda minnti hún mig helst á Meg Tilly (fæðingarbletturinn kannski frekar en að þær hafa báðar kínverskar rætur).
Edward Norton, Kate Hudson, Dave Bautista, Kathryn Hahn, Madelyn Cline og Leslie Odom Jr. (sem Gunnsteinn þekkir vel út af Hamilton) eru restin af meginleikhópnum.
Þegar kom í ljós um hvað myndin snerist hugsaði ég með sjálfum mér að þessar aðstæður væru ákaflega kunnuglegur, mjög svipaðar kvikmyndinni The Last of Sheila (1973). Mikið hefði ég verið stoltur af sjálfum mér ef ég hefði líka þekkt Stephen Sondheim, sem samdi handritið að þeirri kvikmynd, í gestahlutverki sínu í The Glass Onion (nokkrum mánuðum fyrir dauða sinn). Ég þurfti að fletta því upp.
Ég þekkti hina sem deildu skjánum með Sondheim. Einn af þeim lék einmitt í upprunalegu uppfærslunni af söngleik hans Sweeney Todd árið 1979 en lést stuttu eftir að Glass Onion var frumsýnd. Þarna var líka gaur sem semur bækur tengdar Sherlock Holmes (en er mögulega þekktari sem leikari og …). Og sá fjórði vann svo með leikstjóranum Rian Johnson í þáttunum Poker Face (sem ég hef ekki séð).
Það eru margir aðrir sem kíkja snöggt við. Gaman gaman.
Ég ætti að búa til sérstakt efnisorð til að tengja saman faraldursmyndir (Pearl og X eru augljós dæmi). Í þessi tilfelli er það ekki falið heldur innlimað í söguþráðinn.
Glass Onion er fyndnari en Knives Out. Stundum næstum kjánaleg. Það væri hægt að pirra sig á því en heildin er nógu góð til að ég sætti mig við það.
Í lok árs er von á framhaldi. Ég hlakka til.