Svikahrappabræður í hringiðu svika.
Mér leið mjög svipað og þegar ég var að horfa á Brick, fyrri mynd Rian Johnson. Mig langaði nefnilega rosalega að líka við myndina.
Það besta við The Brothers Bloom er Rinko Kikuchi. Hún gerir svo mikið með svo litlu. Rachel Weisz er það næstbesta. Titilpersónurnar leiknar af Adrien Brody og Mark Ruffalo náðu mér ekki.
Myndir um svikahrappa eru vandasamar. Það þarf að vera eitthvað vit í svindlunum sjálfum en ég keypti þau aldrei. Það þarf að dansa vandlega til þess að láta alvöru og fáránlegheit virka saman og það tekst ekki hér.
Í myndinni útskýrir persóna Rachel Weisz hvernig búa má ná fram camera obscura (myrkrunarhús)¹ áhrifum með vatnsmelónu. Svo skemmtilega vill til að systir leikkonunnar, Minnie, er listamaður sem sérhæfir sig í verkum byggða á þeirri tækni.
Rachel er annars gift Daniel Craig sem er þekktastur² fyrir að leika Benoit Blanc í Knives Out seríu Rian Johnson. Ég missti annars alveg af Joseph Gordon-Levitt hérna, alveg eins og í Glass Onion.
Maltin gefur ★★½ og ég er eiginlega sammála.
¹ Camera obscura er auðvitað rótin af orðinu yfir myndavél og þá er camera herbergi.
² Reyndar lék hann í einhverri annarri seríu en ég hef ekki kíkt á þær myndir hans.