Enter The Dragon (1973)👍👍🖖

Bestu bardagamönnum heims er boðið að mæta á mót á eyju auðkýfings.

Í gegnum tíðina hef ég vanrækt myndir Bruce Lee. Vonir mínar voru hóflegar. Það sem Enter The Dragon skortir er vitrænn söguþráðir og heildstæðar persónur. Það var ekki það sem ég var að leita að.

Þetta er auðvitað ákaflega áhrifamikil mynd. Ég hef séð endalausar vísanir í hana. Frægasta atriðið er lokabardaginn í speglasalnum og það er alveg af góðri ástæðu. Umfram það voru bara mörg skemmtileg skot.

Ég bjóst við að bardagaatriðin yrðu gamaldags miðað við allt sem hefur komið í kjölfarið. Það var bæði rétt og rangt hjá mér. Atriðin voru oft hægari en í nýrri myndum en mig grunar að það tengist því frekar að kvikmyndatakan sjálf sé liprari í dag. Það er ennþá gaman að sjá hvernig Bruce Lee „dansaði“.

Ef þið eruð alveg rosalega glögg getið þið séð 19 ára Jackie Chan taka utan um hetjuna okkar. Líklega auðveldara að kíkja á myndina sem fylgir færslunni.

Maltin gefur ★★★½ sem er fínt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *