Stúlka er myrt og segir okkur söguna af aðdraganda þess og eftirmálum.
Ég man eftir að hafa lánað út bókina Svo fögur bein eftir Alice Sebold frekar oft þegar ég vann á Borgarbókasafninu. Ég las hana samt aldrei og hafði ekki séð myndina fyrren núna. Peter Jackson hefur gert mjög góðar myndir, það er bara svolítið langt síðan.
The Lovely Bones rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að skoða leikferil Saoirse Ronan. Ég varð svo minna spenntur þegar ég sá að Mark Wahlberg væri þarna líka. Hann er ekki uppáhaldið mitt þó hann sé fínn í að leika óþolandi gaura frá Boston. Hann tengir við þau hlutverk. Í gær kíkti ég feril Rachel Weisz og sá að hún væri líka í myndinni. Þannig að ég læt mig hafa það.
Efni The Lovely Bones gerir það að verkum að hún getur togað fram tilfinningar. Síðan taka við endalaus súrealísk atriðinu úr handanheimum sem minna helst á What Dreams May Come. Þau atriði eru höfuðverkjavekjandi tölvugrafíkarfyllerí.
The Lovely Bones er á mörkunum að vera sálfræðileg hryllingsmynd og ég held að hún hefði verið betri sem slík. Það hefði verið hægt að klippa út mest af sýrutrippinu sem hefði líka stytt langdregna mynd.
Endirinn var frekar kjánalegur.
Margir hrósa leik Stanley Tucci í myndinni en mér fannst hann líta út eins og gaur sem ætlaði að hræða krakka með því að klæðast barnaníðingsgrímubúning.
Saoirse Ronan er ákaflega góð. Systir hennar er leikin af Rose McIver (nýsjálenska mafían) sem var í skemmtilegasta uppvakningagamanmorðgátuþætti allra tíma, iZombie.
AJ Michalka er í litlu hlutverki, hún var Catra í She-Ra and the Princesses of Power þáttunum og lék í Super 8 (vissuð þið að JJ Abrams afrekaði einu sinni að gera góða mynd). En ég nefni AJ sérstaklega af því systur hennar Aly lék líka í iZombie.
Susan Sarandon kemur með svolítinn húmor í myndina en því miður verð ég að hryggja ykkur, það er mun meira af Mark Wahlberg en Rachel Weisz í myndinni.
Maltin gefur ★★½ sem mér þykir full mikið.