Yacht Rock A DOCKumentary (2024) 👍 ★★⯪☆☆

Tónlistarstefnan sem hefur í seinni tíð verið kölluð snekkjurokk krufin.

Channel 101 var örsjónvarpsþáttasamkeppni í Los Angeles, stofnuð af Dan Harmon (Community) og Rob Schrab (Scud: The Disposable Assassin) þegar ferill þeirra staðnaði eftir Heat Vision and Jack og Monster House (the house … is … a monster).

Fyrir utan Rick & Morty og The Lonely Island er hugtakið snekkjurokk mögulega það þekktasta sem þaðan hefur komið. Gerviheimildarþættirnir Yacht Rock bjuggu til nýja tónlistarstefnu úr gamalli tónlist sem oftast hafði verið flokkað sem „mjúkt rokk“. Doobie Brothers, Steely Dan, Toto og margt fleira. Það eru ekki allir glaðir að vera flokkaðir sem snekkjurokkarar.

Alvöru heimildarmyndin (hafnarmyndin? DOCK sko) er ekki slæm en hefði mátt vera aðeins styttri. Þó mér líki vel við eitthvað af þessum lögum þá er nær engin af þessum hljómsveitum eða tónlistarmönnum í slíku uppáhaldi hjá mér að mig langaði að vita sérstaklega mikið um þær.

Skemmtilegast fannst mér þegar fjallað var um Toto. Þó ég hlusti kannski ekki á heilu plöturnar þeirra er ég hrifinn af lögum eins og Rosanna (Arquette) og auðvitað Africa. Miðað við umfjöllunina í heimildarmyndinni verð ég víst að taka fram að þetta er ekki íronískt að neinu leyti. Ég er enginn hipster. Ef mér líkar við tónlist þá reyni ég ekki að fela það.

Það sem kom mér mest á óvart var hve snekkjurokkið virtist heilla marga svarta tónlistarmenn og að áhrif þessarar tónlistar heyrist kannski einna helst í hipphoppi.

Það fór í taugarnar á mér hvernig eldra myndefni var unnið. Það er eins og að allt sem leit ekki nógu vel út hafi bara verið keyrt í gegnum einhverja gervigreind og uppskölun í stað þess að laga það almennilega til. Það var oft skelfilega ljótt.

★★⯪☆☆

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *