The Pale Blue Eye (2022) ★★☆☆☆🫴

Gaur er kallaður til að rannsaka dauða nema við herskólann West Point árið 1830.

Það er hálfgerður höskuldur í öllum lýsingum á The Pale Blue Eye og ég er eiginlega tilneyddur til að gera það sama. Ef þið viljið ekkert vita getið þið stoppað núna.

Útlitslega er The Pale Blue Eye ákaflega vel heppnuð. Það virðist hafa verið mikið lagt í búninga og sviðsmynd. Bara ef myndin sjálf hefði verið betri.

Christian Bale er rannsakarinn og bara fínn sem slíkur. Við höfum síðan Lucy Boynton, Charlotte Gainsbourg, Gillian Anderson og meiraðsegja óþekkjanlegan Robert Duvall. Verst er að þau hafa mjög takmarkaðan efnivið. Ég hafði á tilfinningunni að þau væru öll að gera sitt besta.

Svo kemur höskuldurinn sjálfur, Harry Melling er í hlutverki Edgar Allan Poe. Honum tekst ágætlega til við að búa til trúverðuga en óspennandi útgáfu af skáldinu.

Margir höfundar eru greinilega spenntir fyrir því að setja sögulegar persónur í uppskáldaðar aðstæður og búa til einhvers konar baksögur sem eiga að skýra líf þeirra og verk. Það mistekst bara svo rosalega oft.

The Pale Blue Eye hvirflast í kringum gátu og rannsóknina á henni. Mér tókst ekki að hafa sérstakan áhuga á henni og úrlausnin, sem var að sumu leyti kjánaleg, hafði því ekki mikil áhrif á mig. 

Óli gefur ★★☆☆☆

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *