Alríkismarskálkur (eilítið frumleg þýðing) rannsakar dularfullt mannshvarf á geðsjúkrahúsi sem er staðsett á eyju.
Kvikmyndin Shutter Island er að flestu leyti einfaldlega vel gerð mynd. Leikararnir alveg ágætir (m.a. annars sonur Carl Wilhelm von Sydow, hins knáa sænska þjóðfræðings). Tónlistin fín. Mér líkaði ekki við hana. Við Martin eigum allavega alltaf Hugo.
Shutter Island er of löng. Síðan er ég almennt ekki hrifinn af draumkenndum senum, sérstaklega ekki endurtekningarsömum og langdregnum. Sem þýðir að þessi mynd var mjög innilega ekki fyrir mig.
Shutter Island er mynd sem á að skilja eftir spurningar. Mín spurning er hvort að vafasöm birtingarmynd geðsjúkdóms og undarlegar vísanir í samtímasögu myndarinnar séu vísbendingar um lausn gátunnar eða bara mistök handritshöfunda.
Nokkrir umræðuþræðir sem ég fann benda til þess að það sé til fólk sem túlkar þetta sem vísbendingar sem gangi þvert á vinsælustu kenninguna um myndina. Mér finnst líklegra að þetta séu mistök og að ég nenni ekki að pæla meira í því.
Maltin var ekki hrifinn og gaf ★★.
Óli gefur ★★⯪☆☆.