Flipped (2010) ★★★★⯪ 👍👍

Hugljúf mynd um fyrstu ástina.

Ein ástæðan mín fyrir að horfa á Flipped er að mig langaði að segja svolítið um leikstjórann. Samkvæmt öllum eðilegum mælikvörðum er Rob Reiner (sonur Carl) risi meðal leikstjóra í Hollywood. Hann gleymist samt eiginlega alltaf. Hann hefur hingað¹ til ekki leikstýrt framhaldsmynd en frá 1984 til 1992 leikstýrði hann sex² myndum sem hafa staðist tímans tönn. Fólk man bara eftir flestu um þær nema leikstjóranum. Þessar myndir gerðu sig ekki sjálfar.

This is Spinal Tap (1984)
Stand by Me (1986)
The Princess Bride (1987)
When Harry Met Sally (1989)
Misery (1990)
A Few Good Men (1992)

Síðan kom North árið 1994. Hún er ekki jafn slæm og fólk vill meina en hún er alls ekki góð³. Það var enginn skortur á góðum bíómyndum það árið og líklega er gott fyrir arfleifð Bruce Willis að hún hefur að mestu gleymst.

Flipped. Ég man varla þegar hún kom út og hef bara örsjaldan heyrt á hana minnst. Hún fékk tiltölulega góða dóma.

Callan McAuliffe og Madeline Carroll eru ákaflega góð sem krakkarnir. Hún fær reyndar, og nýtir sér, að persóna hennar er miklu áhugaverðari. Foreldrarnir eru Aidan Quinn, Penelope Ann Miller, Rebecca De Mornay og Anthony Edwards. Svo fáum við John Mahoney (pabbin í Frasier) í hlutverki afa stráksins.

Af ástæðum sem fáum þykja áhugaverðar finnst mér sérstaklega skemmtilegt að segja að bækur eða kvikmyndir kallist á við eitthvað. Hérna á það vel við af því að Reiner og handritshöfundurinn Andrew Scheinman gerðu líka saman (eins og svo oft) aðra frægari kvikmynd sem gerist á svipuðum tíma. Þær eru ekkert sérstaklega líkar en ef þú ert með athyglina hjá þér gætirðu heyrt einhverja tóna frá Stand by Me.

Það er sannarlega hægt að kalla þessa mynd ljúfa. Oft er það sagt um myndir sem eru að öðru leyti innihaldsrýrar. Þessi er töluvert meira en yfirborðið gefur til kynna. Svo náði myndin lendingunni. Svo margar myndir klúðra endinum en hérna tekst það.

En hvað er undir yfirborðinu? Ég vel hvað skrif mín um kvikmyndir skortir til að teljast raunveruleg gagnrýni. Ég er lítið fyrir greiningu en það er aðallega af því mig langar ekki að segja fólki hvað, eða hvernig, það eigi að hugsa um kvikmyndir fyrirfram. Mig langar frekar að vekja athygli á kvikmyndum í von að fólk horfi sjálft.

Í raun er miklu áhugaverðara að lesa gagnrýni um kvikmyndir eftir að hafa séð þær. Oft lauma ég einhverju í mín skrif sem fattast ekki fyrren eftir áhorf (aðallega aulabrandarar). Sumsé, ég treysti ykkur til að finna dýpið sjálf.

Maltin gefur ★★★ sem er full lágt. Endilega kíkið á lengri gagnrýni hans á myndina (afrit á Internet Archive ef tengillinn virkar ekki) … þegar þið eruð búin að horfa á myndina (augljóslega). Fólk þekkir Leonard Maltin aðallega út af stuttum umsögnunum í bókinni hans en þær gefa ekki góða mynd af honum sem kvikmyndarýni.

Óli gefur Flipped ★★★★⯪ og telur að myndin sýni að Rob Reiner er frábær leikstjóri.

¹ Vandlega orðað því við erum að fá Spinal Tap 2.

² Þarna á milli er The Sure Thing (1985) sem mér finnst líklegt að ég hafi séð en fólk talar voðalega lítið um hana lengur.

³ Þegar ég sá North loksins þótti mér langskemmtilegast að sjá dönsku leikkonuna Scarlett Johansson í sínu fyrsta hlutverki tíu ára gamla.