Bulworth er bandarískur þingmaður sem fer yfir um og byrjar að tjá sig heiðarlega.
Ég man varla eftir því að hafa hugsað um Bulworth fyrren Joe Dante minnist á hana The Movies That Made Me. Síðan tók ég eftir því að Leonard Maltin, Roger Ebert og Jonathan Rosembaum voru allir mjög hrifnir af henni. Þetta eru ekki gagnrýnendur sem eru oft sammála.
Warren Beatty skrifaði handritið, leikstýrði og lék titilhlutverkið. Það sem vakti athygli mína þegar ég horfði á upphafstitlana hugsaði ég endalaust, „ha, þessi líka?“
Hérna eru nokkrir af þessum leikurum. Þó þið kannist ekki við nöfnin þá hafið þið líklega séð myndir eða sjónvarpsþætti með nær öllum þessum leikurum.
Christine Baranski, Don Cheadle, Halle Berry, Jack Warden, Joshua Malina (sem er frægastur fyrir að vera í West Wing), Larry King (sem hann sjálfur), Laurie Metcalf, Michael Clarke Duncan, Nora Dunn, Oliver Platt, Paul Mazursky, Paul Sorvino, Randee Heller (mamman í upprunalega Karate Kid og tengdamóðir Dan Harmon) og Sean Astin. Síðan er Saran Silverman á leikaralistanum en ég man ekki eftir henni úr myndinni.
Til að botna þetta samdi Ennio Morricone tónlistina.
Ég er ekki aðdáandi kvikmynda sem sýna draumóra bandarískra Demókrata um heiðarlega stjórnmálamenn. Það sem mér líkaði við Bulworth er að þingmaðurinn er ekki frábær gaur. Hann hafði kannski einhverjar hugsjónir en þær eru horfnar. Það besta við hann er líklega að honum líkar ekki við sjálfan sig Á vissan hátt er Bulworth meira Being There en West Wing. Hann hefur litla innsýn sjálfur en getur endurtekið það sem klárara fólk hefur sagt.
Bulworth er skrýtin mynd oftast fyndin. Hún er út um allt. Söguþráðurinn er auðvitað fjarstæðukenndur. Hún er stundum einfeldningsleg og mjög síns tíma í nálgun sinni á málefni. Samt á margt enn við í dag. Í myndinni skýtur Warren Beatty einna helst á Demókrata sjálfa. Hún er gagnrýni frá vinstri og hún er oft mjög harkaleg.
Bulworth er gölluð mynd en mér líkar vel við hana.