Ung kona, Diouana, kemur til Frakklands frá Senegal til að vinna og kynnast því sem landið hefur upp á að bjóða.
Kvikmyndasögulega er La Noire de… mikilvæg og er sögð marka upphaf afrískar kvikmyndagerðar sunnan Sahara. Hún er þó ekki nema rétt rúmur klukkutími að lengd. Hún er frumraun rithöfundarins Ousmane Sembène sem leikstjóra. Hann vildi nota kvikmyndaformið til að ná til breiðari hóps, þar á meðal hinna ólæsu.
Á yfirborðinu er La Noire de… sorgarsaga ungrar konu frá Senegal sem kemur til Frakklands í þeirri trú að komið verði fram við hana sem manneskju. Mbissine Thérèse Diop í hlutverki Diouana náði mér um leið og hún birtist á skjánum. Hún er algjörlega lykillinn að myndinni þó hún segi lítið „upphátt“. Í staðinn heyrum við hugsanir hennar. Diouana (borið svolítið fram eins og Jóhanna ) segir okkur frá upplifun sinni og hvernig hún endaði í þessum aðstæðum. Samt segja svipbrigði hennar og látbragð oft meira.
Saga hennar mikilvæg en í henni felst líka saga um heimsvaldastefnuna og arfleifð hennar. Þetta er auðvitað aldrei sagt en við fáum áminningar svo sem mynd af Patrice Lumumba í herbergi kærasta Diouana.
Í öðru atriði sjáum við minnisvarða um þá Senegala sem börðust og dóu fyrir Frakkland í tveimur heimstyrjöldum. Sú áminning er mikilvæg þar sem kvikmyndir um þessar heimstyrjaldir hafa þar til nýlega algjörlega hunsað tilvist allra hermanna frá nýlendunum. Um leið og kvikmyndir sýndu áhorfendum loks einhverja þessarra hermanna var það kallað sögufölsun.
Útlitslega er La Noire de… ákaflega falleg kvikmynd. Mér þótti reyndar leiðinlegt að komast að það er til lengri útgáfa. Sú sem ég sá var 65 mínútur en það er til sjötíu mínútna útgáfa frá BFI. Ég þarf að finna hana næst.
Þar til að kom að lokaatriðinu var ég óviss um hvers konar einkunn hún fengi frá mér. Það náði mér algjörlega og gerði heildina betri.
Ef, eða þegar, þið hafið séð myndina get ég mælt með grein Jonathan Rosenbaum Black-And-White World. Hann kallar La Noire de… meistaraverk.
Óli gefur ★★★★★.