Heimildarmynd um líf og dauða kvikmyndagagnrýnandans Roger Ebert.
Í heild fannst mér Life Itself áhugaverð og áhrifarík en á köflum svolítið teygð.
Ég hef aldrei tengt sérstaklega við Rogert Ebert sem gagnrýnanda. Í mesta lagi sá ég vísanir í hann og Siskel í auglýsingum sem lofuðu tveimur þumlum upp. Svo stal ég þumlunum í tilraun minni til að komast hjá stjörnugjöf (að hafa þá af sömu hendi er auðvitað aulabrandari hjá mér).
Seint og síðarmeir, líklega eftir að Ebert lést horfði ég á töluvert af gömlum þáttum af Siskel & Ebert á YouTube. Þetta var mjög áhrifaríkt form. Tveir gaurar sem voru tilbúnir að rífast þó þeir væru jafnvel sammála um gæði myndarinnar. Og ég hugsaði til Ásgeirs og hvað það væri gott að hafa hann til að segja mér hve innilega rangt ég hef fyrir mér í skrifum mínum um kvikmyndir.
Mér þótti gaman að Jonathan Rosenbaum kemur fram í myndinni sem einn af fulltrúum „alvarlegrar“ kvikmyndagagnrýni. Í heild er hann auðvitað jákvæður, sér í lagi um vefinn Robert Ebert punktur com.
Leonard Maltin, sem kemur ekki fram í myndinni þrátt fyrir að hafa verið vinur Ebert, náði ekki að bæta Life Itself í kvikmyndahandbók sína því hún var nýhætt að koma út á þeim tíma en hann gaf henni mjög jákvæða umsögn á vef sínum.